Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2023 Utanríkisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samstarfsráðherra hélt opnunarávarp á Pride í Færeyjum

Heimsókn samstarfsráðherra Norðurlandanna, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, til Færeyja í síðustu viku var viðburðarík. Megintilgangur heimsóknarinnar var þátttaka í gleðigöngunni í Þórshöfn (Føroyar Pride), auk funda með ráðherrum í ríkisstjórn landsins og heimsóknum til norrænna stofnana í Færeyjum.

Samstarfsráðherra hélt ræðu í upphafi gleðigöngunnar. Ráðherrann kom inn á það bakslag sem orðið hefur í réttindabaráttunni víða um heim og áréttaði mikilvægi þess að berjast áfram fyrir sjálfsögðum mannréttindum hinsegin fólks. Ráðherrann sagði frá jákvæðum breytingum á löggjöf sem snertir hinsegin fólk á Íslandi, sérlega trans og intersex fólk, á undanförnum árum og hvatti færeysk stjórnvöld til að feta sömu leið. Sirið Stenberg, félagsmálaráðherra Færeyja, hélt einnig tölu en þetta er í eitt af fáum skiptum sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar tekur formlega þátt í hátíðarhöldum á Pride. Ráðherrarnir gengu síðan saman í gleðigöngunni ásamt færeyska samstarfsráðherranum, Bjarna Kárasyni Petersen. Þá dróg Guðmundur Ingi einnig regnbogafánann að húni við aðalræðisskrifstofu Íslands í Þórshöfn ásamt aðalræðismanni Íslands í Færeyjum, Ágústu Gísladóttur, en þetta er í fyrsta sinn sem fánanum er flaggað þar.

Ráðherra fundaði með samstarfsráðherra Norðurlanda í Færeyjum, og var norrænt og vestnorrænt samstarf þar efst á baugi. Ísland hefur lagt áherslu á aukið vestnorrænt samstarf á formennskuári sínu í Norrænu ráðherranefndinni sem hófst í byrjun þessa árs. Stefnt er að þríhliðafundi vestnorrænu samstarfsráðherranna samhliða þingi Norðurlandaráðs sem haldið verður í Osló í lok október. Ásamt því að gegna embætti samstarfsráðherra Færeyja gegnir Bjarni Petersen einnig embætti dómsmálaráðherra og ræddu ráðherrarnir því einnig málefni flóttafólks og inngildingu þess í samfélög okkar.

Ráðherra fundaði líka með Sirið Stenberg, félagsmálaráðherra Færeyja, en þau ræddu jafnréttismál og stöðu hinsegin fólks í löndunum tveimur ásamt því að ræða málefni fatlaðs fólks og eldra fólks.

Guðmundur Ingi fundaði einnig með Esther Petersen framkvæmdastjóra hagsmunasamtaka hinsegin fólks í Færeyjum (LGBT+ Føroyar) og Anniku Ró Samuelsen, nefndarformanns hjá samtökunum. Til umræðu á fundinum var staða hinsegin fólks í Færeyjum, breytingar á lagaumhverfinu og baráttumál næstu ára.

Guðmundur Ingi heimsótti líka tvær norrænar stofnanir, annars vegar Norðurlandahúsið og hins vegar Norræna Atlantssamstarfið, NORA. Heimsóknirnar voru báðar mjög gagnlegar og fróðlegar en ráðherrann hefur lagt mikið upp úr því að heimsækja norrænar stofnanir á ferðum sínum um Norðurlöndin.

  • Samstarfsráðherra hélt opnunarávarp á Pride í Færeyjum   - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum