Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Kaup á kolefniseiningum vel innan heimilda í fjárlögum vegna Kýótó-bókunarinnar

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ritað undir samning ásamt umhverfisráðherra Slóvakíu um kaup Íslands á 3,4 m kolefniseiningum frá Slóvakíu. Þessi tilhögun mun gera Íslandi fært að standa við skuldbindingar sínar á 2. tímabili Kýótó-bókunarinnar. Kaupverð er um 350 milljónir króna sem er vel innan heimilda á fjárlögum ársins, en gert var ráð fyrir 800 milljónum í verkefnið.

Skv. samningnum rennur kaupverð á einingunum í sjóð í Slóvakíu sem styður loftslagstengd verkefni, s.s. bætta einangrun húsa. Var þetta nær eini kosturinn sem felur í sér styrk til verkefna sem draga úr losun. Slóvakía mun gera Íslandi grein fyrir framgang þeirra verkefna sem verða styrkt.

Legið hefur fyrir í nokkurn tíma að Ísland losaði meira af gróðurhúsalofttegundum á skuldbindingatímabilinu 2013-2020 en sem svarar þeim heimildum sem Ísland hefur í Kýótó-bókuninni fyrir þetta tímabil. Kýótó-bókunin gerir ráð fyrir að ríki geti staðið við skuldbindingar sínar á þrennan hátt: með því að draga úr losun, með kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu og með kaupum á kolefniseiningum. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og utanríkisráðuneytið, hefur skoðað leiðir varðandi kaup á kolefniseiningum til að bregðast við stöðunni og taldi besta kostinn að kaupa einingar af Slóvakíu.

Endanlegt uppgjör á 2. skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar fer fram á vegum skrifstofu Loftslagssamnings S.þ. í byrjun sept. 2023.

Ísland var í hópi þeirra þjóða sem tóku á sig skuldbindingar vegna 2. tímabils Kýótó-bókunarinnar, en það voru eingöngu Evrópuríki og Ástralía sem það gerðu. Ísland hefur því alla tíð verið í hópi þeirra ríkja sem hafa tekið mesta ábyrgð og ströngustu alþjóðlegar skuldbindingar varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.

„Þetta er farsæl niðurstaða í snúinni stöðu,“ segir Guðlaugur Þór. „Þetta er fortíðarvandi sem kemur í minn hlut að leiða til lykta. Það er ekki í boði að Ísland standi ekki við sínar skuldbindingar, við höfum verið og erum í hópi þeirra ríkja sem eru með mestan metnað í loftslagsmálum. Þetta er miklu betri niðurstaða fyrir ríkissjóð en gert var ráð fyrir, eða um 450 milljónum minna en gert var ráð fyrir. Það hefði auðvitað verið best ef við hefðum náð settum markmiðum með landgræðslu og skógrækt en því verður ekki breytt úr þessu.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum