Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Tónlistarmiðstöð formlega stofnuð og ný stjórn kynnt

Menningar- og viðskiptaráðherra ásamt  nýskipaðri stjórn Tónlistarmiðstöðvar.  - myndMVF

Í dag fór fram stofnfundur Tónlistarmiðstöðvar í Hörpu. Stjórn Tónlistarmiðstöðvar var kynnt á fundinum en formaður stjórnar miðstöðvarinnar er Einar Bárðarson.

Stjórnina skipa auk Einars þau Sólrún Sumarliðadóttir, Ásmundur Jónsson, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Gunnar Hrafnsson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal. Varamenn í stjórn verða Arna Kristín Einarsdóttir, Baldur Þórir Guðmundsson, Sölvi Blöndal, Bragi Valdimar Skúlason, Margrét Eir Hönnudóttir, Bergrún Snæbjörnsdóttir og Aron Örn Óskarsson.

Á viðburðinum í Hörpu tóku meðal annars til máls Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Steindór Dan Jensen formaður bráðabirgðastjórnar og Einar Bárðarson nýr stjórnarformaður Tónlistarmiðstöðvar. Einnig ávarpaði Jakob Frímann Magnússon gesti fyrir hönd starfshópsins sem vann að nýsamþykktri tónlistarstefnu og stofnun Tónlistarmiðstöðvar.

„Þetta er mikill gleðidagur og einstaklega mikilvægur áfangi fyrir tónlist og tónlistarfólk hér á landi. Þetta er löngu tímabært skref sem mun styrkja tónlistargeirann til framtíðar. Tónlistarmiðstöðin getur orðið einn af hornsteinum tónlistarlífs og -iðnaðar og það er mín von og trú að tónlistarsenan hér á landi muni blómstra sem aldrei fyrr,“ sagði menningar- og viðskiptaráðherra í Hörpu í dag.

Stofnaðilar Tónlistarmiðstöðvar eru STEF, Félag hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Tónskáldafélag Íslands auk menningar- og viðskiptaráðherra f.h. ríkissjóðs. Öll félögin eiga fulltrúa í stjórninni. Tónlistarmiðstöð starfar samkvæmt nýjum tónlistarlögum, nr. 33/2023.

Hornsteinn í íslensku tónlistarlífi

Tónlistarmiðstöð er stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Á árunum 2023-2025 er ráðgert að samtals 600 milljónir renni af fjárlögum til stofnunar Tónlistarmiðstöðvar og til eflingar sjóða tónlistar til viðbótar við þau framlög sem renna nú þegar til tónlistar.

„Ég þakka starfshópnum og bráðabirgðastjórninni fyrir vel unnið starf. Tónlistarmiðstöð er afrakstur samstarfs tónlistargeirans og ráðuneytisins og byggir á tillögum grasrótarinnar. Með góðu samstarfi má svo sannarlega hrinda stórum hugmyndum í framkvæmd á tiltölulega skömmum tíma,“ sagði ráðherra meðal annars í ávarpi sínu í dag.

Ný stjórn Tónlistarmiðstöðvar tekur við af bráðabirgðastjórn en hana skipuðu Steindór Dan Jensen, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Gunnar Hrafnsson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal.

Starfshópinn sem vann að undirbúningi stofnunar Tónlistarmiðstöðvar skipuðu Jakob Frímann Magnússon, Baldur Þórir Guðmundsson, Bragi Valdimar Skúlason, Bryndís Jónatansdóttir, Eiður Arnarsson, Gunnar Hrafnsson, María Rut Reynisdóttir, Sólrún Sumarliðadóttir og Valgerður Guðrún Halldórsdóttir,

Uppbygging tónlistariðnaðar

Tónlistarmiðstöðin mun bæði sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð mun styðja við uppbyggingu sprota og hlúa að ferli listafólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjölbreytni og grósku og að starfsumhverfið verði nútímalegt og hvetjandi fyrir íslenskt tónlistarlíf.

Með stofnun Tónlistarmiðstöðvar er stigið stórt skref í áttina að því að veita listgreininni aukið vægi og til að greiða leið íslensks tónlistarfólks, innan lands sem utan.

Tónlistarmiðstöð er sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og starfar samkvæmt sérstakri skipulagsskrá sem stjórn setur og staðfestir.
  • Tónlistarmiðstöð formlega stofnuð og ný stjórn kynnt - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum