Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Opið er fyrir umsóknir til listamannalauna 2024

Opnað hefur verið fyrir umsóknir til listamannalauna fyrir árið 2024. Tilgangur listamannalauna er að efla listsköpun í landinu. Opið er fyrir umsóknir til kl. 15:00, 2. október 2023.

Samkvæmt lögum um listamannalaun eru til úthlutunar 1600 mánaðarlaun, 133,3 árslaun:

  • 50 mánuðir úr launasjóði hönnuða, 4,2 árslaun
  • 435 mánaðarlaun úr launasjóði myndlistarmanna, 36,3 árslaun
  • 555 mánaðarlaun úr launasjóði rithöfunda, 46 árslaun
  • 190 mánaðarlaun úr launasjóði sviðslistafólks, 15,8 árslaun
  • 180 mánaðarlaun úr launasjóði tónlistarflytjenda, 15 árslaun
  • 190 mánaðarlaun úr launasjóður tónskálda, 15,8 árslaun

Í umsóknum er óskað eftir:

  • Lýsingu á vinnu og listrænu gildi verkefna (50% vægi)
  • Ferli umsækjenda (30% vægi)
  • Verk- og tímaáætlun (20% vægi)

Umsóknir eru einstaklingsumsóknir og nota þarf rafræn skilríki við gerð þeirra. Ef við á þarf að tilgreina umsóknarnúmer samstarfslistamanna í umsóknum. Sviðslistahópar sækja um í launasjóð sviðslistafólks í gegnum umsókn Sviðslistasjóðs.

Hafi umsækjandi hlotið starfslaun áður, verður umsókn aðeins tekin til umfjöllunar ef framvinduskýrslu/lokaskýrslu hefur verið skilað sbr. ákvæði 4. gr. laga um listamannalaun nr. 57/2009. Skýrslur eru á „mínum síðum“ umsækjenda.

Á vef listamannalauna er umsóknarform, matskvarði, áherslur stjórnar, lög og reglugerð og leiðbeiningar um gerð umsókna og skýrslna.

Fyrirspurnir skal senda á: [email protected]

Listamenn eru hvattir til að skila umsóknum tímanlega en umsóknarfrestur rennur út kl. 15:00, þann 2. október 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum