Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Metnaðarfull menningardagskrá á Menningarnótt

Menningarnótt fer fram í dag og langt fram á kvöld. Sett hefur verið upp fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna svo flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Hér fyrir neðan má sjá nokkra viðburði á Menningarnótt hjá stofnunum sem heyra undir menningar- og viðskiptaráðuneytið. Alla dagskrá Menningarnætur má finna HÉR.

Hús Ásgríms Jónssonar – Listasafn Íslands

Leiðsögn í Húsi Ásgríms Jónssonar um sýninguna Gluggi í Reykjavík 16:00 – 17:00

María Margrét Jóhannsdóttir listfræðingur leiðir gesti um sýninguna Gluggi í Reykjavík. Sýningin samanstendur af úrvali verka eftir Ásgrím Jónsson sem eiga það sameiginlegt að tengjast nærumhverfi listamannsins í Reykjavík.

Verkin eru úr safneign Listasafns Íslands en Ásgrímur ánafnaði íslensku þjóðinni öll listaverk sín ásamt húseign sinni að Bergstaðastræti 74 í Reykjavík.

Listasafn Íslands, Fríkirkjuvegi

Listaverkstæði í Listasafni Íslands 14:00 – 17:00

Komið og skapið í fallegu umhverfi safnsins. Alls kyns blandaður efniviður í boði, málning á striga, vatnslitir, fundinn efniviður og frumlegar aðferðir í listsköpun. Ný dagskrá Krakkaklúbbsin Krumma fyrir haustið 2023! Umsjón með smiðju: Kristín Dóra Ólafsdóttir

Leiðsögn um einkasafnið – Lifandi skráning 17:00

Anna Jóhannsdóttir, sýningarstjóri leiðir gesti um sýninguna Einkasafnið á Menningarnótt í Listasafni Íslands. Í upphafi árs 2022 var listaverkasafn hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur og Þorvaldar Guðmundssonar, sem kenndur var við Síld og fisk, afhent Listasafni Íslands til framtíðarvörslu.

Safnið, sem samanstendur meðal annars af málverkum, teikningum, grafíkverkum, höggmyndum og lágmyndum, er með stærstu einkasöfnum hér á landi og telur um 1400 verk eftir marga af helstu listamönnum þjóðarinnar.

Þar af eru um 400 verk eftir Jóhannes S. Kjarval sem var mikill vinur þeirra hjóna. Safnið verður skráð sem sérsafn í Listasafni Íslands og verkunum komið á stafrænt form í gagnagrunni sem er almenningi aðgengilegur, en með því eykst einnig aðgangur að verkunum í tengslum við sýningar og útgáfu.

Þjóðleikhúsið

Þjóðleikhúsið verður opið og býður gestum og gangandi í vöfflukaffi á Menningarnótt. Þar verður hægt að kynna sér nýtt leikár Þjóðleikhússins.

Spunamaraþon Improv Ísland 15:00 – 22:30

Improv Ísland byrjar haustið af krafti með hinu árlega spunamaraþoni í Þjóðleikhúskjallaranum. Frá klukkan 15:00 – 22:00 spinna spunaleikarar Improv Ísland (ásamt góðum gestum) ólíkar sýningar sem allar eru búnar til á staðnum. Ekkert er ákveðið fyrirfram og allt getur gerst þegar hver sýning er bæði frumsýning og lokasýning. Það er frítt inn, en á hálftíma fresti verður hleypt inn og út úr salnum.

Safnahúsið við Hverfisgötu – Listasafn Íslands

Fjölskyldudagskrá í Safnahúsinu við Hverfisgötu! 14:00 – 17:00

Verið hjartanlega velkomin á opnun kaffihússins Siguranna í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Ilmandi kaffi, kökur, léttir réttir og nýbakaðar skonsur.

Í Safnahúsinu stendur nú yfir sýningin Viðnám – samspil myndlistar og vísinda. Á Menningarnótt gefst tækifæri til þess að njóta alls hins besta sem sýningin hefur upp á að bjóða. Safnið er opið til kl. 22 og ókeypis aðgangur er að safninu á Menningarnótt.

Listasmiðjur og leikir 14:00 – 17:00

Á Menningarnótt verður sannkallað fjölskyldufjör í Safnahúsinu. Ratleikur um sýninguna, skuggamyndasmiðja, leikur að litum og ljósi, klippimyndasmiðja og barmmerkjagerð. Öll velkomin!

Píanótónleikar – 17:00

Tónlistarmaðurinn ungi Kári Egilsson leikur af fingrum fram á píanó í lessal Safnahússins. Innan tíðar kemur út ný djassplata Kára en hann fæst jöfnum höndum við djass og popptónlist.

Sinfoníuhljómsveit Íslands

Opið hús á Menningarnótt, Hörpu kl. 15 og kl.17

Á Menningarnótt í Reykjavík býður Sinfóníuhljómsveit Íslands gestum og gangandi að vanda á litríka og skemmtilega tónleika fyrir alla fjölskylduna. Að þessu sinni leiðir Vigdís Hafliðadóttir, tónlistarkona og uppistandari, áheyrendur í óvissuferð um lendur klassískrar tónlistar og segir frá sínum uppáhaldstónskáldum og verkum.

Meðal verka á efnisskránni eru vinsæl og skemmtileg verk sem hrífa jafnt unga sem aldna, svo sem forleikurinn að Töfraflautu Mozarts, Ungverskir dansar Johannesar Brahms, æskumyndir Schumanns og eldheitur tangó eftir Jacob Gade.

Þá tekur Vigdís sjálf lagið á tónleikunum, en hún hefur vakið athygli fyrir frábæra söngrödd og hrífandi sviðsframkomu, jafnt ein og sér og með hljómsveitinni Flott.

Aðgangur á tónleikana er ókeypis, hægt er að sækja miða á sinfonia.is og í miðasölu Hörpu á tónleikadegi frá kl. 11:00. Tónleikarnir eru u.þ.b. 50 mínútur. Öll velkomin meðan húsrúm leyfir.

Harpa er að venju með mjög viðamikla dagskrá frá, gestum að kostnaðarlausu 13.00 – 18.00. Allar upplýsingar um dagskrá er að finna á vef Hörpu

Þjóðminjasafn Íslands

Víkingaheimur við Þjóðminjasafn frá 12:00 – 17:00.

Víkingafélagið Rimmugýgur slær upp tjaldbúðum við Þjóðminjasafnið og skapar sannkallaðan miðaldaheim sem ævintýralegt er að lifa sig inn í. Þar verður barist, farið í axarkast, iðkuð bogfimi, matur útbúinn að hætti landnámsfólks og margt fleira. Börn geta klæðst búningum í anda Víkingaaldar.

Island of Winds - Nýstárleg miðlun menningararfs 12:00 – 16:00

Leikjafyrirtækið Parity Games, í samstarfi við Þjóðminjasafnið, mun miðla íslenskum menningararfi á nýstárlegri hátt í gegnum tölvuleikinn Island of Winds til gesta á Menningarnótt.

Tölvuleikurinn Island of Winds tekur innblástur frá 17.aldar Íslandi og skartar því íslenskri náttúru, kynjaverum og munum frá íslenskum söfnum. Gestir geta skoðað teikningar og muni úr leiknum en einnig verður hægt að spila leikinn sjálfan, Island of Winds.

Ljósmyndasýning um borg og bý - Allan daginn

Þjóðminjasafnið stendur fyrir ljósmyndasýningu þennan dag á auglýsingaskjám víðs vegar um borgina. Sýndar verða svipmyndir frá Reykjavík liðins tíma í bland við svipmyndir frá Varsjá. Samvinnuverkefni við Borgarsögusafnið í Varsjá.

Myndum verður varpað á eftirfarandi skjái:
• Hilton, Suðurlandsbraut.
• Húsgagnahöllin, Axlarhöfða
• Sprengisandur
• Þróttur

Fjölbreyttar sýningar 10:00 – 17:00

Í safninu eru nú fimm sérsýningar sem við hvetjum gesti til að heimsækja. Þar á meðal er ljósmyndasýningin Ekki augnablikið heldur eilífðin með verkum Rúnars Gunnarssonar sem enginn ætti að missa af og sýningin Heimsins hnoss sem hlotið hefur verðskuldaða athygli.

Grunnsýningin, Þjóð verður til, er á sínum stað, en hún veitir gestum áhrifamikla innsýn í menningu þjóðarinnar.

Ratleikir og rúnaristur fyrir alla fjölskylduna 10:00 – 17:00

Hægt er að nálgast ratleiki í móttöku safnsins. Ratleikirnir gera heimsókn í safnið sérlega skemmtilega og eftirminnilega fyrir börnin. Í fjölskyldurýminu Stofu má svo leika með leggi, búpening og ýmis leikföng í anda liðinnar tíðar. Kaffi og kleinur 10:00 – 17:00

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra

Miðstöðin stendur ekki fyrir sérstökum viðburði á Menningarnótt en hvetur fólk á að læra táknið menningarnótt á íslensku táknmáli. Sjá hér!

Samskiptamiðstöð heldur úti SignWiki síðu þar sem hægt er að læra menningartengd tákn í íslensku táknmáli í tilefni dagsins. Tákn í flokknum menning og listir má finna hér!

Listasafn Einars Jónssonar

Menningarnótt í Listasafni Einars Jónssonar 12:00 – 22:00

Öll velkomin. Safnið er opið frá 12 – 22.

Stafrænar styttur og 360° safn 17:00 – 18:00

Þröstur Thor Bragason, hreyfimyndahönnuður hjá verkfræðistofunni Eflu, leiðir gesti á öllum aldri gegnum spennandi tækni til að skoða stafræna tvíbura af listaverkum Einars og þrívíddarskönnnun af sýningarsölum safnsins.

„Að leysa fjötraða fegurð úr böndum“ 20:00 – 21:00

Einar Jónsson og Davíð Stefánsson. Ljóðadagskrá í flutningi Valgerðar H. Bjarnadóttur, fyrrum húsfreyju í Davíðshúsi, sem fjallar um tengsl myndhöggvarans og ljóðskáldsins. Einar og Davíð ortu sín ljóð í orð og efni, trúir synir listagyðjunnar og oft skemmtilega samstíga þar sem þeir leituðust við að túlka hráan veruleikann og háleita fegurðina.

Stutt leiðsögn um íbúð Einars og Önnu 21:00 - 21:30

Þóra Sigurbjörnsdóttir, sérfræðingur hjá safninu, leiðir gesti um íbúð Einars Jónssonar og Önnu Marie Mathilde Jørgensen. Íbúðin er talin vera fyrsta turníbúð landsins og er góð heimild um stíl og tíðaranda þriðja áratugarins hér á landi.

Stutt leiðsögn um 100 ára safn 21:30–22.00

Alma Dís Kristinsdóttir, safnstjóri, leiðir gesti um safnið og segir frá tilurð þess og tilgangi á hundrað ára afmælisári þess. Listasafn Einars Jónssonar er fyrsta listasafn landsins sem opnað var almenningi í eigin húsnæði. Í dag starfar safnið í almannaþágu.

Rás 2

Tónaflóð 19:30 – 23:00

Tónaflóð Rásar 2 verður á sínum stað á Menningarnótt og verður í beinni útsendingu á RÚV og Rás 2 frá Arnarhóli þann 19. ágúst.

Á þessu 40 ára afmælisári Rásar 2 verður boðið upp á töfrandi tónlistarveislu, þar sem fram koma:
• Flóni
• Aron Can
• Diljá
• Una Torfa
• HAM
• Klara Elias
• RAGGA GÍSLA ásamt Valdimar, GDRN og Mugison

Alla dagskrá Menningarnætur má finna HÉR!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum