Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2023 Utanríkisráðuneytið

Aukin þjónusta við íslensk fyrirtæki á erlendum mörkuðum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, Hildur Árnadóttir, formaður stjórnar Íslandsstofu og Pétur Þ. Óskarsson, við undirritun samkomulags.   - mynd

Utanríkisráðuneytið og Íslandsstofa hafa gert með sér samkomulag þess efnis að Íslandsstofa taki í auknum mæli að sér þjónustu við íslensk fyrirtæki á erlendum mörkuðum með ráðningu viðskiptafulltrúa í völdum borgum. Samningurinn felur í sér að að fagleg samræming og verkstjórn þeirra viðskiptafulltrúa verði á ábyrgð Íslandsstofu. Tilgangur samstarfsins er að efla stuðning við íslenskar útflutningsgreinar með ráðningu sérhæfðra viðskiptafulltrúa sem veitt geti íslenskum útflutningsfyrirtækjum og útflutningsgreinum sértæka aðstoð og þjónustu í samræmi við útflutningsstefnu Íslands.  

Þessi þjónusta viðskiptafulltrúa á áherslumörkuðunum kemur til viðbótar við almenna hagsmunagæslu utanríkisþjónustunnar og þann stuðning sem hún veitir á öllum mörkuðum sem felur meðal annars í sér aðstoð við að liðka fyrir viðskiptum á nýjum mörkuðum, stuðning við viðskiptasendinefndir og milliríkjasamskipti, ásamt öflun og miðlun upplýsinga.
Ákvörðun um staðsetningu viðskiptafulltrúa samkvæmt þessu fyrirkomulagi verður tekin sameiginlega af ráðuneytinu og Íslandsstofu í samræmi við mat á tækifærum á erlendum mörkuðum. Fyrstu viðskiptafulltrúarnir sem ráðnir verða með þessum hætti verða annars vegar við sendiráð Íslands í Varsjá og hins vegar viðskiptafulltrúi Íslands í Bandaríkjunum, sem staðsettur er í New York. Gert er ráð fyrir að þeir taki til starfa 1. janúar 2024. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra: „Þjónusta við íslensk fyrirtæki á erlendum mörkuðum hefur um árabil verið mikilvægur þáttur í starfsemi utanríkisþjónustunnar. Þessar skipulagsbreytingar sem við ráðumst nú í ásamt Íslandsstofu fela í sér tækifæri til að auka sérhæfingu í samræmi við þarfir atvinnulífsins á hverjum tíma. Markmiðið er að þróa þetta samstarf áfram þannig að íslensk fyrirtæki hafi enn betri aðgang að þjónustu á fleiri mörkuðum.“

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu: „Við höfum á undanförnum árum markvisst aukið samstarfið við sendiskrifstofur Íslands erlendis. Þetta samkomulag er einn liður í því að þróa það samstarf enn frekar. Við ákvörðun á mörkuðum horfum við meðal annars til þeirra tækifæra sem til staðar eru á viðkomandi svæðum en einnig til þess hvar viðskiptafulltrúar á okkar vegum geta komið með sérhæfða þekkingu að borðinu. Það getur til dæmis verið á tilteknu sviði atvinnulífsins í viðkomandi landi eða staðbundna þekkingu á því að stunda viðskipti á nýjum mörkuðum.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum