Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Skrifstofa ráðherra óháð staðsetningu í haust

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur frá stofnun ráðuneytisins staðsett skrifstofu sína víðs vegar um landið enda eiga málefni ráðuneytisins erindi um land allt. Á hverri starfsstöð býður ráðherra öll áhugasöm velkomin í opna viðtalstíma þar sem tækifæri gefst til að eiga stutt, milliliðalaust spjall um málefni á borði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Þá eru fyrirtækjaheimsóknir í fjölbreytt fyrirtæki og stofnanir á hverju svæði einnig hluti af dagskrá ráðherra.

,,Það eru tækifæri um land allt og með þessum hætti fæ ég enn betri innsýn í þau verkefni sem tengjast ráðuneyti mínu. Svo megum við sem búum á höfuðborgarsvæðinu ekki gleyma því að það er jafnlangt fyrir okkur að sækja landsbyggðina heim og það er fyrir þau að koma til höfuðborgarinnar,” segir Áslaug Arna.

Staðsetningar skrifstofu ráðherra haustið 2023:

  • Seltjarnarnes – 7. september
  • Ölfus - 30. október
  • Vesturbyggð - 8. nóvember (opinn viðtalstími á Patreksfirði)
  • Norðurþing - 22. nóvember (opinn viðtalstími á Húsavík)
  • Húnabyggð og Húnaþing vestra - 23. nóvember (opnir viðtalstímar á Blönduósi og Hvammstanga)
  • Skagafjörður 6. desember

Athugið að dagsetningar eru birtar með fyrirvara um breytingar á dagskrá ráðherra.

Störf óháð staðsetningu

Frá því að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið tók til starfa í febrúar 2022 hefur ráðuneytið verið opið fyrir störfum óháð staðsetningu og eru störf ráðherra þar engin undantekning. Í þessu felst að starfsemi ráðuneytisins er ekki bundin við aðalstarfsstöð þess í Reykjavík. Með því að staðsetja skrifstofu ráðherra víðs vegar um landið gefst mikilvægt tækifæri til aukinnar tengslamyndunar og samstarfs við háskóla, stofnanir, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklinga um land allt.

Á kjörtímabilinu hefur Áslaug Arna þegar staðsett skrifstofu sína í fjölmörgum sveitarfélögum landsins. Haustið 2022 voru Snæfellsbær, Mosfellsbær, Árborg, Hafnarfjörður, Akureyri, Reykjanesbær, Ísafjörður, Vestmannaeyjar, Akranes og Múlaþing sótt heim og vorið 2023 staðsetti ráðherra skrifstofu sína í Grindavík, Kópavogi, Borgarbyggð, Fjallabyggð, Fjarðabyggð, Hornafirði og Rangárþingi eystra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum