Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2023 Matvælaráðuneytið

Skýrsla um mat á leiðum til að fækka frávikum við veiðar á langreyðum komin út

Langreyðarkýr með kálfi. - myndHafró

Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði í júní sl. hefur skilað af sér skýrslu til matvælaráðuneytisins um mat á leiðum til að fækka frávikum við veiðar á langreyðum. Í starfshópnum sátu fulltrúar matvælaráðuneytis, fulltrúi Matvælastofnunar og fulltrúi Fiskistofu, auk þess sem hópurinn kallaði utanaðkomandi sérfræðinga til aðstoðar.

Eftirlitsskýrsla Matvælastofnunar um velferð hvala við veiðar á langreyðum árið 2022 barst ráðuneytinu í maí sl. og var niðurstaða skýrslunnar að aflífun langreyða tæki of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra. Matvælastofnun fól í kjölfarið fagráði um velferð dýra að meta hvort veiðarnar gætu uppfyllt markmið laga um velferð dýra.

Álit fagráðsins barst matvælaráðuneytinu 19. júní og var niðurstaða ráðsins að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum samræmdist ekki ákvæðum laga um velferð dýra.

Í kjölfarið setti matvælaráðherra reglugerð um tímabundna frestun veiða á langreyðum til 1. september. Í kjölfar þess skipaði matvælaráðherra starfshóp með það að markmiði að rannsaka hvort, og þá hvaða, leiðir væru færar til þess að fækka frávikum við veiðar á langreyðum.

Starfshópurinn rýndi fram komnar tillögur að bættum veiðiaðferðum í skýrslunni, auk þess sem fjallað er um önnur þau atriði sem lúta að ákvarðanatöku um veiðarnar. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:

  • Starfshópurinn telur að mögulegt sé að bæta veiðiaðferðir við veiðar á stórhvölum.

  • Að mati starfshópsins eru framkomnar tillögur og þær úrbætur sem þeim er ætlað að hafa til þess fallnar að hafa áhrif á árangur við veiðarnar.

  • Starfshópurinn telur ekki unnt að útiloka miðað við lýsingar á þeim ólíku aðferðum sem lagt hefur verið mat á að veiðar með breyttum aðferðum séu betur til þess fallnar en eldri aðferðir að fækka frávikum sé litið til mögulegra samlegðaráhrifa þeirra.

Ráðuneytið hefur nú skýrslu starfshópsins til skoðunar þannig að hægt sé að undirbyggja næstu skref. Hér eftir sem hingað til verða allar ráðstafanir byggðar á gildandi lögum, faglegum sjónarmiðum og í samræmi við vandaða stjórnsýslu.

Skýrsluna má lesa hér.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum