Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Skýrsla starfshóps um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna

Í dag kom út skýrsla starfshóps menningar- og viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna.

Hópurinn var skipaður haustið 2022 og hafði það hlutverk að kanna og greina arðsemi og gjaldtöku stóru íslensku viðskiptabankanna þriggja, m.a. í samhengi við aðra norræna banka og með hliðsjón af Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út árið 2018. Hópurinn skilaði skýrslunni af sér nú í sumar.

Vaxtamunur meiri á Íslandi

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur meðal annars fram að kostnaðarhlutföll bankanna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sambærileg og hjá svipuðum bönkum á Norðurlöndunum. Aukin hagkvæmni í rekstri bankanna og lækkun sérstaka bankaskattsins hefur þó ekki skilað sér í minni vaxtamun heldur í bættri arðsemi.

Vaxtamunur heildareigna, þ.e. hlutfall hreinna vaxtatekna af heildareignum banka, er töluvert meiri en á Norðurlöndunum, þrátt fyrir svipuð kostnaðarhlutföll og svipaða arðsemi síðastliðin tvö ár. Vaxtamunurinn er svipaður nú og hann var árið 2018.

Vaxtamunur inn- og útlána (húsnæðislán og óbundnir sparnaðarreikningar) er hins vegar næstlægstur hér á landi samanborið við Norðurlöndin.

Verð á bankaþjónustu hefur lækkað að raunvirði síðastliðin ár og er þar að auki mjög lítill hluti af heildarútgjöldum heimilanna eða um 0,4-0,5%. Til samanburðar nema útgjöld vegna matar og drykkjarvara 15,2% af heildarneyslu, húsnæðis, hita og rafmagns 30,2% og ferða og flutninga 15,5%.

Ógagnsæ gjaldtaka

Sum þjónustugjöld bankanna eru ógagnsæ að því leyti að ekki er ljóst hver kostnaður bankans er við að veita þjónustuna, sem oft er rafræn og/eða sjálfvirk. Í skýrslunni kemur fram að gjöld fyrir þjónustu í útibúum hafa hækkað hlutfallslega meira en gjöld fyrir rafræna þjónustu.

Í niðurstöðum skýrslunnar er sérstaklega fjallað um að gengisálag bankanna feli í sér ógagnsæja gjaldtöku. Gengisálag bankanna á kortafærslur í erlendri mynt sker sig töluvert úr annarri gjaldtöku því álagið kemur hvergi fram í verðskrám bankanna og virðist vera breytilegt milli gjaldmiðla og frá einum tíma til annars.

Kostnaður sem neytendum er ekki ljós dregur úr möguleikum þeirra til þess að taka hagstæðar ákvarðanir við val á vörum og þjónustuleiðum.

Hærri kostnaður vegna greiðslumiðlunar

Í skýrslunni kemur einnig fram að kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar er mun hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Þessi aukni kostnaður við greiðslumiðlun hefur í för með sér hærra verð á vöru og þjónustu til íslenskra neytenda, sem bera á endanum kostnaðinn.

Seðlabankinn áætlar að kostnaður samfélagsins af notkun greiðslumiðla hér á landi á árinu 2021 hafi verið um 47 milljarðar króna eða um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslukorta ríflega 20 milljarðar króna. Langstærstur hluti af færslunum fer í gegnum innviði erlendra kortafyrirtækja.

Starfshópurinn lagði fram eftirfarandi tillögur til úrbóta í skýrslunni:

  • Sett verði á fót samanburðarvefsjá á verði fjármálaþjónustu að norskri og sænskri fyrirmynd.
  • Gagnsæi við gjaldtöku í greiðslumiðlun við notkun greiðslukorta í erlendri mynt í formi álags á almennt gengi verði aukið.
  • Kannaðir verði möguleikar á að draga úr kostnaði í innlendri greiðslumiðlun í samræmi við ábendingar Seðlabanka Íslands í nýlegum skýrslum.
  • Aukin áhersla verði lögð á fjármálafræðslu fyrir almenning frá hlutlausum aðilum til að efla fjármálalæsi neytenda.
  • Stjórnvöld búi til ramma og skýrar leikreglur og fyrirtæki setji fram upplýsingar og valmöguleika á skiljanlegan hátt.

    Hópinn skipuðu Daníel Svavarsson, skrifstofustjóri í menningar- og viðskiptaráðuneyti (formaður), Gylfi Zoega, tilnefndur af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Tinna Finnbogadóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðherra, Auður Alfa Ólafsdóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, Breki Karlsson, tilnefndur af Neytendasamtökunum, Kristín Eir Helgadóttir, tilnefnd af Hagsmunasamtökum heimilanna og Yngvi Örn Kristinsson, tilnefndur af Samtökum fjármálafyrirtækja. Einar B. Árnason, sérfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, var einnig vinnuhópnum til aðstoðar.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér á vef Stjórnarráðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum