Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2023 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin fundaði með fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi

Ríkisstjórnin ásamt fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi. - myndMynd: Gunnar Gunnarsson

Árlegur sumarfundur ríkisstjórnarinnar fór fram á Egilsstöðum í dag. Eftir hefðbundinn ríkisstjórnarfund fundaði ríkisstjórnin með fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi og var viðstödd athöfn í tengslum við verkefnið Römpum upp Ísland.

Á fundi ríkisstjórnarinnar með fulltrúum Fjarðabyggðar, Fljótsdalshrepps, Múlaþings, Vopnafjarðarhrepps, Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og Austurbrúar var m.a. rætt um atvinnumál, orkumál, samgöngumál, öryggismál, heilbrigðismál og opinbera þjónustu á svæðinu.

Á ríkisstjórnarfundinum í morgun var samþykkt að framlengja verkefni um uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði sem ráðist var í í kjölfar hamfaranna í desember 2020. Verður verkefnið stutt um 25 milljónir króna sem bætast við þær 215 milljónir sem þegar hafa verið veittar í byggðastyrk.

Þá var samþykkt að veita viðbótarstyrk vegna flutnings menningarsögulegra húsa á Seyðisfirði af hættusvæðum. Verður verkefnið styrkt um alls 200 milljónir króna á árunum 2024 og 2025 en fjárhæðin bætist við þær 190 milljónir sem þegar hafa verið veittar til verkefnisins.

Einnig var ákveðið að flýta upphafi framkvæmda við ofanflóðavarnir á Norðfirði um eitt ár og þær hefjist 2024 í stað 2025. Auk þess sem framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði hafa gengið hraðar en áætlað var og heimiluð hefur verið 150 milljóna króna aukning til þeirra á þessu ári til að flýta verkefninu.

Ríkisstjórnin var einnig viðstödd athöfn við Hótel Hérað á vegum Múlaþings og verkefnisins Römpum upp Ísland. Alls hafa verið gerðir rúmlega 800 rampar á landinu, þar af 46 á Austurlandi. Dagskrá ríkisstjórnarinnar lýkur síðar í dag með óformlegum vinnufundi. 

Sumarfundir ríkisstjórnarinnar hafa undanfarin ár verið haldnir utan Reykjavíkur en þetta er í sjötta sinn sem það er gert. Á síðasta ári fór sumarfundurinn fram á Vestfjörðum en áður hefur ríkisstjórnin haldið sumarfund sinn  í Snæfellsbæ, í Mývatnssveit, á Hellu og á Suðurnesjum.

 

  • Ríkisstjórnin fundaði með fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi - mynd úr myndasafni númer 1

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum