Hoppa yfir valmynd
1. september 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fitch staðfestir A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs með stöðugum horfum

Matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur birt mat á lánshæfi ríkissjóðs. Lánshæfiseinkunn er óbreytt í A og horfur eru stöðugar.

Í fréttatilkynningu Fitch segir að A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspegli miklar tekjur á mann og góða stjórnarhætti sem eru sambærilegri við lönd með AAA og AA lánshæfiseinkunn. Ísland hefur byggt upp umtalsverðan viðnámsþrótt sem dregur úr næmni gagnvart ytri áföllum og áhættu í greiðslujöfnuði, svo sem mikinn gjaldeyrisforða og góða sjóðsstöðu ríkissjóðs. Til styrkleika teljast einnig verulegar lífeyrissjóðseignir, traust fjármálakerfi og sterkir efnahagsreikningar einkageirans. Háar opinberar skuldir, smæð hagkerfisins og einsleitni útflutnings halda aftur af einkunninni. Í mati Fitch er fyrst og fremst horft til vergra skulda hins opinbera, þ.e. án tillits til ríflegra innstæðna ríkissjóðs líkt og gert er þegar skuldir eru birtar samkvæmt skilgreiningu laga um opinber fjármál.

Samkvæmt Fitch eru há verðbólga og hert fjármálaleg skilyrði byrjuð að dempa efnahagsumsvif. Fitch spáir 3,5% hagvexti árið 2023, 0,6 prósentustigum minna en í spá sinni frá júní. Sterkur bati í ferðaþjónustu hefur að hluta til vegið á móti kólnandi innlendum umsvifum, en talið er að fjöldi erlendra farþega í ár muni auðveldlega ná fjöldanum árið 2019. Vöxtur útflutningsgreina og aukin fjölbreytni innlendra geira mun hjálpa til við að minnka næmi hagkerfisins gagnvart ytri áföllum. Þegar eru komin fram teikn um fjárfestingu í framleiðnari geirum sem eru minna næmir fyrir hagsveiflunni, svo sem líftækni og upplýsingatækni. Ísland er jafnframt í sterkri stöðu til þess að styrkja alþjóðlega samkeppnisstöðu sína á sviði fiskeldis.

Í júní tilkynntu stjórnvöld um nýjar aðgerðir til þess að sporna gegn verðbólgu og hertu aðhald opinberra fjármála til þess að styðja við aðgerðir Seðlabanka Íslands til lækkunar verðbólgu. Fitch spáir því að skuldahlutfall hins opinbera lækki úr 68,2% af landsframleiðslu árið 2022 í 62,9% í ár.

Markverð og viðvarandi lækkun skuldahlutfalls hins opinbera, meiri leitnivöxtur þjóðarbúsins og/eða vísbendingar um aukna fjölbreytni hagkerfisins sem minnka næmi Íslands gagnvart ytri áföllum gætu, eitt sér eða í sameiningu, haft jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.

Markvert verra skuldahlutfall hins opinbera, til dæmis vegna viðvarandi tímabils slaka í ríkisfjármálum, eða alvarlegt efnahagslegt áfall, til dæmis vegna skarprar leiðréttingar á fasteignamarkaði, gætu, eitt sér eða í sameiningu, haft neikvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.

Tilkynning Fitch 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum