Hoppa yfir valmynd
18. september 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og vinnumarkaðsráðherra veitir 60 milljónum króna í styrki til að takast á við ofbeldi

Fulltrúar styrkhafa ásamt Guðmundi Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, veitti í dag styrki til verkefna sem miða að því að tryggja þolendum og gerendum ofbeldis um land allt aðgengi að stuðningi og ráðgjöf. Veittir voru styrkir að upphæð 60 milljónum króna.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið auglýsti í sumar eftir umsóknum um styrki til verkefnanna og gátu styrkirnir að hámarki numið 75% af áætluðum heildarkostnaði hvers verkefnis. 

Styrkirnir eru einn liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að bregðast við afleiðingum Covid-19 faraldursins og hlutu eftirfarandi verkefni styrk: 

Samtök um kvennaathvarf

Kvennaathvarf á Akureyri og aukin fræðsla

Kvennaathvarf á Akureyri – 26.250.000 kr.
Samtök um kvennaathvarf lögðu upp með tilraunarekstur á kvennaathvarfi á Akureyri árið 2020. Komið hefur í ljós að þörf fyrir athvarf á Norðurlandi er brýn og aukin aðsókn með hverju árinu hefur sannað mikilvægi þess. Styrkurinn gerir samtökunum nú kleift að taka á móti konum og börnum í dvöl allan sólarhringinn þar sem þeim er veitt nauðsynleg aðhlynning, utanumhald og eftirfylgni. 

Fræðsla og sýnileiki – 9.450.000 kr. 
Kvennaathvarfið mun fara af stað með aukna fræðslu um kynbundið ofbeldi og sýnileika Kvennaathvarfsins. Lögð verður sérstök áhersla á landsbyggðina og konur af erlendum uppruna. Stefnt er að því að bjóða upp á fræðslu m.a. til fagaðila, fyrirtækja og framhaldsskólanema um birtingamyndir kynbundins ofbeldis og fjölbreytta þjónustu Kvennaathvarfsins. Þá verður boðið upp á viðtalsþjónustu í að lágmarki fjórum af stærstu byggðarkjörnum á landsbyggðinni. Styrkurinn verður einnig nýttur til gerð kynningarefnis á mörgum tungumálum og vefsíða uppfærð og þýdd. Sérstakt kynningarátak og vitundarvakning mun fara fram á Norðurlandi.

Ríkislögreglustjóri / Sveitarfélög á Suðurnesjum

Svæðisbundið samráð gegn ofbeldi og afbrotum á Suðurnesjum – 18.800.000 kr. 

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Grindavík, Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Vogar og Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum vinna að svæðisbundnu samráði vegna ofbeldis og afbrota á Suðurnesjum. Sett verður á stofn Velferðarmiðstöð fyrir þolendur ofbeldis, byggða á Family Justice Center-líkaninu. Önnur verkefni munu byggja á sameiginlegu stöðumati aðila um vænlegar áherslur er lúta að ofbeldisvörnum og tilfinningu íbúa fyrir öryggi. Unnin verður sameiginleg aðgerðaáætlun gegn ofbeldi með mælanlegum markmiðum og eftirfylgni tryggð. 

Soroptimistaklúbbur Suðurlands (Sigurhæðir)

„Assyst Treatment Intervention“ – þjálfun starfsfólks Sigurhæða í áfallamiðaðri nálgun á grundvelli EMDR-aðferðafræðinnar – 3.000.000 kr.

Sigurhæðir, sem rekið er af Soroptimistaklúbbi Suðurlands, er þjónustuúrræði fyrir konur búsettar á Suðurlandi sem orðið hafa fyrir ofbeldi. Þar býðst þeim samhæfð ráðgjöf, stuðningur og meðferð. Styrknum verður varið í að þjálfa starfsfólk Sigurhæða í áfallamiðaðri nálgun og þróun EMDR-meðferðarinnar, með það að markmiði að fjölga þeim sem fá áfallamiðaða nálgun en fækka þeim sem þurfa einstaklingsbundna meðferð í því skyni að gera starfið hagkvæmara og markvissara. Þetta verður gert með þrepa- og hópaskiptingu í samræmi við ASSYST-hugmyndafræðina. 

Kvennaráðgjöfin

Lögfræðiráðgjöf – 2.000.000 kr.

Kvennaráðgjöfin sinnir ókeypis félags- og lögfræðiráðgjöf til þeirra sem til hennar leita. Meginmarkmið er að hjálpa aðilum sem eiga ekki tök á að greiða fyrir lögfræðiaðstoð og jafna þannig stöðu fólks úr ólíkum hópum samfélagsins, ekki síst þau sem minna fé hafa til ráðstöfunar. 

Bjarkarhlíð

Þjónusta við þolendur ofbeldis með „ASSYST“-aðferðafræðinni – 500.000 kr. 

Ný nálgun í þjónustu við þolendur ofbeldis með „ASSYST“-aðferðafræðinni. Úrræði þetta er hugsað sem millistig í þjónustu við þolendur ofbeldis, þ.e. að skima með skimunarlista fyrir einstaklingum sem þurfa meiri þjónustu vegna áfalla sem þau hafa orðið fyrir vegna ofbeldis en þurfa ekki sértæka meðferð eins og áfallameðferðina EMDR. Markmiðið er að valdefla og styrkja þolendur ofbeldis. ASSYST-úrræðið býður upp á slíka þjónustu í hópmeðferð og hafa þau sérsniðið aðferðir til að mæta mismunandi áföllum. 

Styrkhafar ásamt Guðmundi Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum