Hoppa yfir valmynd
18. september 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp um sameiningu Náttúrufræðistofnunar, Landmælinga og RAMÝ í samráðsgátt

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi vegna sameiningar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ). Gert er ráð fyrir að sameiningin styrki og einfaldi starfsemina og stuðli að frekari þekkingaruppbyggingu og nýsköpun, sem og eflingu starfsstöðva á landsbyggðinni.

Um er að ræða hluta af áformum um endurskipulagningu stofnana ráðuneytisins þar sem gert er ráð fyrir að til verði þrjár öflugar stofnanir í stað átta. Áform um lagasetningu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í maí 2023, mál nr. 103/2023.

Frumvarpið sem nú er til kynningar felur í sér breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, þar sem gert er ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun yfirtaki réttindi og skyldur Landmælinga Íslands og RAMÝ. Gert er ráð fyrir að við sameininguna verði starfsfólk Landmælinga og RAMÝ hluti af hinni sameinuðu stofnun og er jafnframt lagt til að heiti stofnunarinnar verði framvegis Náttúrufræðistofnun í stað Náttúrufræðistofnunar Íslands.  

Með sameiningunni eru ekki lagðar til breytingar á lögbundnum verkefnum umræddra stofnana, heldur eru eingöngu lagðar til lagabreytingar sem þörf er á til samræmis vegna sameiningarinnar. Lagt er til að fagráð skv. lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu verði lagt af sökum þess að sá tilgangur þess að viðhalda tengslum náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Náttúrufræðistofnun Ísland, Hafrannsóknarstofnun og Háskóla Íslands auk sveitarfélagsins, verði ekki fyrir hendi eftir sameininguna. Einnig verði felld niður ákvæði um sérstök setur með sjálfstæðan fjárhag og er það til samræmis við ábendingar Ríkisendurskoðunar, en setrafyrirkomulagið hefur þegar verið lagt af í framkvæmd.

Verði sameiningin að veruleika mun fjöldi starfsfólks í sameinaðri stofnun verða alls 72, sem áfram starfi á núverandi starfsstöðvum stofnananna í Garðabæ, Akranesi, Akureyri, Mývatni og Breiðdalsvík. 

Gert er ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun taki 1. janúar 2024 við hlutverki, verkefnum, réttindum og skyldum, eignum og skuldbindingum Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.

Áhugasömum er bent á að umsagnarfrestur vegna frumvarpsins í samráðsgátt stjórnvalda er til 2. október nk.

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur (sameining Náttúrufræðistofnunar Ísl., Landmælinga Ísl. og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum