Hoppa yfir valmynd
19. september 2023 Utanríkisráðuneytið

Mikill stuðningur Íslendinga við alþjóðasamstarf

Utanríkisráðuneytið - mynd

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, eða 84,8 prósent, segja skipta miklu máli að Ísland hafi gott orðspor í alþjóðasamfélaginu. Þá segja 72,5 prósent þátttöku Íslands í alþjóðasamvinnu styrkja fullveldi Íslands og 76,9 prósent telja hagsæld Íslands að miklu leyti byggja á alþjóðlegum viðskiptum. Þetta er á meðal niðurstaðna árlegrar könnunar sem Maskína gerir fyrir utanríkisráðuneytið um viðhorf almennings til ýmissa þátta í utanríkisþjónustu Íslands. 

„Það er afskaplega ánægjulegt að sjá að þorri þjóðarinnar telur þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi skipta miklu máli. Raunin er sú að það eru einmitt fámennar þjóðir eins og okkar sem eiga einna mest undir því að það séu alþjóðalög og alþjóðastofnanir sem marki samskipti milli þjóða en ekki stærð og vopnavald. Niðurstöður könnunarinnar sýna að Íslendingar hafa skilning á mikilvægi alþjóðamála og það er mér og þeim sem starfa að utanríkismálum Íslands góð hvatning,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Íslendingar vilja styðja Úkraínu

Sérstaklega var spurt um stuðning landsmanna við Úkraínu. Þannig sögðust 81,6 prósent vera hlynnt því að Ísland styðji Úkraínu í stríðinu við Rússland en sjö prósent eru andvíg. Þá eru 86,5 prósent hlynnt því að Ísland veiti Úkraínu mannúðaraðstoð í stríðinu við Rússland og 68,6 prósent segjast hlynnt efnahagslegum stuðningi við Úkraínu. Athygli vekur að 35,8 prósent segjast hlynnt því að Ísland veiti Úkraínu beinan hernaðarlegan stuðning, til dæmis með því að greiða fyrir þjálfun hermanna, hergögn eða flutning á þeim en 38,9 prósent segjast andvíg. Sambærileg spurning var borin upp í könnuninni árið 2022, þegar innrás Rússlands í Úkraínu var nýhafin, og þá sögðust 21,3 prósent hlynnt hernaðarlegum stuðningi og 52 prósent sögðust andvíg. 

Við þetta má bæta að 83,8 prósent landsmanna eru andvíg því að Ísland eigi í samstarfi við Rússland á alþjóðavettvangi og þegar spurt er með hvaða ríkjum fólk telur að Ísland eigi síst að starfa með á alþjóðavettvangi nefna flestir, 25,3 prósent, Rússland. Þar á eftir er Kína (12%), Norður Kórea (8,1%) og Belarús (5,3%). Aðspurð með hvaða ríkjum fólk telur að Ísland eigi helst samleið með á alþjóðavettvangi nefna flestir Norðurlöndin, Noreg (16,8%), Danmörku (15,8%), Svíþjóð (13,3%) og Finnland (8,4%). Þar á eftir eru Bandaríkin (7%). Þá segja 77,4 prósent mikilvægt að Ísland veiti þróunarríkjum og íbúum þeirra aðstoð.

Margir hafa áhyggjur af þróun alþjóðamála

Rúmur helmingur þeirra sem svaraði könnuninni segist hafa miklar áhyggjur af þróun alþjóðamála, eða 55,6 prósent, á meðan einungis 9,1 prósent segjast hafa litlar áhyggjur. Alls segjast 61,5 prósent hafa meiri áhyggjur nú en þau höfðu fyrir ári síðan. Þess má geta að á síðasta ári sögðust 75,5 prósent hafa meiri áhyggjur en árið þar áður. 

Þá hafa 68,2 prósent miklar áhyggjur af dreifingu falsfrétta og 65,8 prósent segja að Ísland ætti að beita sér sérstaklega á sviði tjáningarfrelsis á alþjóðavísu og 61,9 prósent segja að Ísland eigi að beita sér sérstaklega gegn hatursorðræðu. 

Jákvæðni í garð norræns samstarfs

Þegar spurt er um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi eru Íslendingar sem fyrr jákvæðastir fyrir norrænu samstarfi en alls segjast 87,9 prósent landsmanna jákvæðir gagnvart því að Ísland taki virkan þátt í norrænu samstarfi. Alls segjast 58,5 prósent aðspurðra jákvæð gagnvart aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samningins, en 10,9 prósent segjast neikvæð gagnvart honum. 

Stuðningur almennings við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (62,6%) minnkar ögn á milli ára en þess má geta að hann jókst um tæp tuttugu prósentustig í fyrra, þegar rúmlega sjötíu prósent Íslendinga sögðust vera jákvæð gagnvart aðild Íslands að bandalaginu samanborið við rúmlega fimmtíu prósent árið 2021. Það sama á við um viðhorf almennings til varnarsamstarfs Íslands við Bandaríkin, nú segjast 53,7 prósent vera jákvæð í garð samstarfsins, en hlutfallið var 60,7 prósent í fyrra og 43,1 prósent árið 2021.

Könnunin fór fram á netinu dagana 4. til 8. maí 2023. Svarendur voru 1.017 og voru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá. Allar niðurstöður könnunarinnar má nálgast á eftirfarandi hlekk: https://www.maskina.is/maelabord/utn-allir/ 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum