Hoppa yfir valmynd
20. september 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ræddu um stöðu fjölmiðla og lýðræðis í New York

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra ásamt Jim Yardley. - mynd

Mikilvægi frjálsra fjölmiðla fyrir lýðræðið og gjörbreytt rekstrarumhverfi þeirra með tilkomu samfélagsmiðla og alþjóðlegra streymisveitna, var í brennidepli á fundum Lilju Daggar Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra með fulltrúum The New York Times og aðstoðarframkvæmdastjóra samskipta hjá Sameinuðu þjóðunum í New York í gær.

Á fundi Lilju með Jim Yardley aðstoðarritstjóra (e. Associate Managing Editor) hjá The New York Times ræddu þau stöðu frjálsra fjölmiðla, tæknibreytingar og tekjumódel fjölmiðla. Yardley er handhafi Pulitzer blaðamannaverðlaunanna og hefur starfað fyrir fjölmiðilinn síðan árið 1997. Í máli Yardley kom meðal annars fram að meirihluti tekna miðilsins komu nú frá áskriftum í stað auglýsinga áður.

Þá fundaði Lilja með Melissa Fleming aðstoðarframkvæmdastjóra samskipta hjá Sameinuðu þjóðunum í höfuðstöðvum þeirra. Þær ræddu jafnframt stöðu fjölmiðla og með hvaða hætti stjórnvöld og alþjóðastofnanir geta stutt við lýðræðislegt hlutverk þeirra í vestrænum samfélögum og um heim allan. Mikilvægt sé að standa vörð um frelsi fjölmiðla og tjáningarfrelsi einstaklinga ásamt því að sporna gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu. Á vegum Sameinuðu þjóðanna stendur nú yfir vinna við gerð sameiginlegrar stefnu um gæði upplýsinga á stafrænum miðlum (e. Our common Agenda Policy Brief and Information Integrity on Digital Platforms) sem áformað er að taki gildi á næsta ári.

„Það er mikilvægt fyrir lýðræðið að við stöndum vörð um ritstýrða fjölmiðla. Sér í lagi á tímum örra tæknibreytinga til að almenningur hafi aðgang að áreiðanlegum fréttum og upplýsingum. Það er sífellt flóknara að átta sig á því hvort fréttir á samfélagsmiðlum komi frá ábyrgum blaðamanni, áhrifavaldi, erlendri ríkisstjórn eða er framleidd af gervigreind,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum