Hoppa yfir valmynd
21. september 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á stofnanafyrirkomulagi í samráðsgátt: Frumvörp um Loftslagsstofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir drög að frumvörpum um Loftslagsstofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun. Annars vegar er um að ræða samruna Orkustofnunar og þess hluta starfsemi Umhverfisstofnunar er lýtur að umhverfis- og loftslagsmálum. Hins vegar er um að ræða samruna náttúruverndarhluta Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Samkvæmt frumvörpunum er gert ráð fyrir að til verði tvær kröftugar og faglega öflugar stofnanir sem verði vel í stakk búnar til að takast á við hinar stóru áskoranir í umhverfismálum til framtíðar.

Frumvörpin eru hluti af endurskipulagningu stofnana ráðuneytisins þar sem áformað er að til verði þrjár öflugar stofnanir í stað átta. Áform þess efnis voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í maí á þessu ári, mál nr. 103/2023. 

Með breytingum á stofnanakerfi ráðuneytisins er m.a. stefnt að því að einfalda til muna stofnanakerfið, bæta þjónustu, efla þekkingar- og lærdómssamfélag, skapa áhugaverða vinnustaði, fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu, nýta betur þekkingu, innviði og gögn. Auk þess að auka sveigjanleika og samþættingu stefnumótunar, einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni. Er breyttu stofnanakerfi ekki síst ætlað að tryggja sérstaklega aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Ekki er ráðgert að gera breytingar á lögbundnum verkefnum stofnananna, heldur eru eingöngu lagðar til nauðsynlegar lagabreytingar vegna samruna umræddra stofnana. 

Gert er ráð fyrir að ný Loftslagsstofnun hafi fyrst og fremst með höndum stjórnsýslu og eftirlit. Starfssvið hennar verður afar fjölbreytt og mun m.a. ná til loftslagsmála, orkuskipta og orkunýtni, loftgæða, sjálfbærrar auðlindanotkunar, hringrásarhagkerfis, mengunarvarna, raforkumála og rammaáætlunar.

Náttúruverndar- og minjastofnun er ætlað að sinna verkefnum á sviðum náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar, menningarminja, friðlýstra svæða þ.m.t. þjóðgarða, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnun. Við gerð frumvarps til laga um Náttúruverndar- og minjastofnun var sérstök áhersla lögð á að efla og viðhalda því skipulagi sem skilað hefur góðum árangri við stefnumótun um stjórn og vernd innan þjóðgarða. Gert er ráð fyrir að í nýrri stofnun verði ekki skipuð sérstök stjórn heldur fari svæðisstjórnir með umsjón tiltekinna landfræðilega afmarkaðra svæða. Þannig starfi Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvallaþjóðgarður og Snæfellsþjóðgarður óslitið áfram, en með tilkomu nýrrar stofnunar verði stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og Þingvallanefnd ekki lengur stjórnir yfir sjálfstæðum ríkisstofnunum. Þá fái þjóðgarðsráð Snæfellsjökulsþjóðgarðs aukin áhrif hvað varðar stefnumótun um stjórnun og vernd innan marka þjóðgarðsins. Gert er ráð fyrir að Breiðafjarðarnefnd starfi áfram og að Vatnajökulsþjóðgarði verði, sökum stærðar, áfram skipt í fjögur rekstrarsvæði með svæðisráðum eins og verið hefur. Svæðisstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hafi hins vegar heildarumsjón með þjóðgarðinum öllum. Svæðisstjórnirnar munu hafa það hlutverk að móta stefnu fyrir viðkomandi svæði í gegnum stjórnunar- og verndaráætlun og aðrar stefnumótandi áætlanir, svo sem atvinnustefnu. Þar sem svæðisstjórnirnar verði ekki lengur stjórnir yfir sjálfstæðum ríkisstofnunum muni þær ekki hafa það hlutverk að fjalla sérstaklega um rekstur stofnunarinnar í heild sinni, en muni hins vegar koma að vinnu við gerð fjárhagsáætlana svæða og veita stjórnendum ráðgjöf um áherslur í starfi hvers þjóðgarðs.

Útivistarsamtök og félagasamtök eru í dag með áheyrnaraðild að fundum stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs auk þess sem 1 stjórnarmaður er tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í svæðisstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs muni 3 fulltrúar heildarsamtaka á sviði náttúruverndar, útivistar og ferðaþjónustu eiga áheyrnafulltrúa. Tillagan byggir á því að rétt sé að fulltrúar hagsmunasamtaka gegni fyrst og fremst ráðgjafarhlutverki en sé ekki ætlað að taka ákvarðanir sem lúta að stjórnun þjóðgarðs. Mikilvægast sé að rödd hagsmunasamtaka heyrist á þessum vettvangi og að tillit sé tekið til sjónarmiða þeirra við ákvarðanatöku. Hvað varðar ákvæði um þjóðgarðsráð í náttúruverndarlögum, þá er gert ráð fyrir að skipan þeirra verði óbreytt en að hlutverkið verði útvíkkað eins og áður sagði. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum hefur ákveðna sérstöðu þar sem hann er friðlýstur helgistaður allra Íslendinga og undir stjórn Þingvallanefndar sem í sitja sjö alþingismenn kosnir af Alþingi. Gert er gert ráð fyrir óbreyttri skipan nefndarinnar.

Vatnajökulsþjóðgarði er í dag skipt í fjögur rekstrarsvæði, hvert með sitt svæðisráð. Í ráðunum sitja 6 fulltrúar, 3 tilnefndir af sveitastjórnum sveitarfélaga á viðkomandi rekstrarsvæði, 1 tilnefndur sameiginlega af ferðamálasamtökum á svæðinu, 1 tilnefndur af útivistarsamtökum og 1 tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum. Formaður svæðisráða kemur úr hópi sveitarstjórnarmanna. Í frumvarpinu er lagt til að þetta fyrirkomulag verði óbreytt.

Fjöldi stöðugilda þeirra stofnana sem munu tilheyra nýrri Náttúruverndar- og minjastofnun er í dag um 120 og 115 stöðugildi hjá þeim stofnunum sem munu tilheyra  Loftslagsstofnun. Lagt er til að Loftslagsstofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun taki til starfa 1. janúar 2025.  

Athygli er vakin á því að umsagnarfrestur vegna frumvarpsins í samráðsgátt stjórnvalda er til 4. október nk. Allar uppástungur um nöfn nýrra stofnanna eru vel þegnar og verða teknar til skoðunar ásamt öðrum ábendingum í umsögnum.

Frumvörp til laga um Loftslagsstofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum