Hoppa yfir valmynd
21. september 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fjármögnunarlíkan háskóla gert gagnsætt með árangurstengdri fjármögnun

Áslaug Arna Sigurbjörndsóttir, ráðherra háskólamála, kynnir árangurstengda fjármögnun háskóla. - myndmbl.is / Eyþór

Árangurstengd fjármögnun háskóla hefur verið kynnt en um er að ræða nýtt fjármögnunarlíkan háskóla sem tekur við af reiknilíkani háskóla sem hefur verið í  notkun frá árinu 1999. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, kynnti nýtt fyrirkomulag fjármögnunar háskóla á dögunum en íslenskir háskólar hafa um langt árabil kallað eftir endurskoðun kerfinu. Þá hvatti Ríkisendurskoðandi til kerfisbreytinga árið 2007 í þeim tilgangi að auka skilvirkni og gæði háskólanáms og einnig var grænbók um fjármögnun háskólanna gefin út árið 2019. Nýtt fjármögnunarlíkan verður að fullu innleitt árið 2025.

Fjölbreyttir hvatar og mælikvarðar

Þungamiðjan í nýrri aðferðafræði um deilingu fjármuna til snýr að því að greitt er fyrir loknar einingar og útskriftir í mun meira mæli. Áður var áhersla lögð á magn frekar en gæði sem sést m.a. í áherslu á skráða eða virka nemendur og ónákvæmri skilgreiningu á þreyttum einingum. Þá hefur reikniflokkum verið fækkað úr fimmtán í fjóra og vægi útskrifta margfaldað.

Auk breyttra áhersla í kennsluhluta líkansins í takt við kröfur nútímasamfélags ber nýtt kerfi með sér mælanlegar breytur á árangri tengdum rannsóknum. Í fyrsta sinn er hvati fyrir háskóla til að sækja erlenda styrki sem eykur bæði gæðastarf og samkeppnishæfni. Þá er einnig litið til birtingatölfræði og vægi útskrifta doktorsnema hækkað verulega. Í gamla reiknilíkani háskóla voru rannsóknaframlög óljós og illrekjanleg, án tengsla við árangur og gæði rannsókna.

Samfélagslegt hlutverk háskóla

Í fyrsta sinn er samfélagslegt hlutverk háskóla fjármagnað sérstaklega. Þessi hluti árangurstengds fjármögnunarlíkans telur 25% af heildarfjármögnun og er honum ætlað að gera háskólum kleift að sækja fjármagn með því að rækta mikilvægt samfélagslegt hlutverk sitt, t.a.m. með auknu framboði fjarnáms, nýsköpun í kennsluháttum, stuðningi við samfélagshópa á borð við innflytjendur og fatlað fólk til að stuðla að jöfnu aðgengi að háskólanámi og fjölgun nemenda í STEAM greinum og heilbrigðis- og menntavísindum.

Samfélagslegur hluti nýs fjármögnunarlíkans lítur einnig til sjónarmiða á borð við endurgjöf nemenda, eflingu byggða og innleiðingu nýs kerfis, auk kennslu- og rannsóknarauka hvers hlutverk er að tryggja aðgengi að námi og stuðning við rannsóknir og birtingar á fræðasviðum sem þjóna mikilvægu hlutverki fyrir íslenska tungu og menningu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum