Hoppa yfir valmynd
21. september 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Heimsótti MoMA safnið og skoðaði nýja miðstöð sviðslista

Frá heimsókninni í MoMA safnið í New York. - mynd

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti nýlistasafnið í New York, sem er betur þekkt sem MoMA. Þar fundaði hún með Jey Levenson yfirmanni alþjóðlegra verkefna ásamt því að skoða safnið. Ræddu þau meðal annars um gróskuna í nútímalist og möguleika á samstarfi við íslensk listasöfn og íslenska listamenn.

Ráðherra fékk leiðsögn um sýninguna Emerging Ecologies sem segir frá arkítektúr á tímum aukinnar umhverfisvitundar. Í október fer fram í Reykjavík Third Ecology, ráðstefna evrópska arkítektúrsagnfræðinga. Ráðstefnan er haldin í Hörpu og er unnin í samvinnu við Listaháskóla Íslands og MoMA. Þar verður fjallað sérstaklega um samspil manngerðs og náttúrulegs umhverfis.

Í heimsókninni til New York skoðaði ráðherra einnig PAC, nýja miðstöð fyrir sviðslistir, í fylgd Bill Rauch listræns stjórnanda og Jennu Chrisphonte. Þau voru áhugasöm um að fá íslenska listamenn til að koma þar fram. PAC sviðslistamiðstöðin var opnuð fyrr í mánuðinum er staðsett á Ground Zero við hlið minnismerkisins um fórnarlömb árásarinnar á Tvíburaturnana þann 11. september 2001. Við enduruppbyggingu svæðisins var talið mikilvægt að útbúa þennan vettvang fyrir sviðslistir, sem myndi spila lykilhlutverk í næsta kafla borgarinnar.

„New York er miðstöð menningar og viðskipta í heiminum. Markmið þessarar heimsóknar er að tengja enn frekar skapandi greinar á Íslandi við lykilaðila í borginni. Íslenskir listamenn njóta mikillar virðingar hér og því er ég mjög spennt og bjartsýn á framhaldið,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum