Hoppa yfir valmynd
25. september 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Styðja við aðstöðu sjálfstæðra sviðslistahópa í Reykjavík

Úr sýningunni SUND sem sýnd er í Tjarnarbíó. - mynd

Menningar- og viðskiptaráðuneyti og Reykjavíkurborg hafa komist að samkomulagi um að styðja við innviði sviðslistasenu höfuðborgarinnar með sérstaka áherslu á Tjarnarbíó og tryggja þannig sjálfstæðum sviðslistahópum áframhaldandi aðstöðu til sýningahalds í Reykjavík.

Mun menningar- og viðskiptaráðuneytið leggja fram 10 m kr. í stofnfjárframlag, þar af renna 7 m.kr. til Tjarnarbíós, og Reykjavíkurborg leggur til 14,5 m.kr. til Tjarnarbíós frá undirritun samnings og til loka júní 2024, til viðbótar við 22 m.kr. framlag á árinu 2023. Enn fremur heldur menningar- og íþróttasvið Reykjavíkurborgar áfram styrk sínum til Tjarnarbíós vegna innri leigu og nýtingu fasteignar og búnaðar en sá kostnaður nemur um 40 m.kr. á ársgrundvelli.

Samhliða verður ráðist í úttekt og þarfagreiningu á bæði aðstöðu atvinnufólks í sviðslistum sem og sjálfstæðra sviðslistahópa á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfar þeirrar vinnu verða frekari aðgerðir til stuðnings sjálfstæðu sviðslistasenunni skoðaðar í samvinnu hagaðila.

„Tjarnarbíó skiptir sjálfstæðu sviðlistahópana höfuðmáli til sýningahalds. Við sjáum ótrúlega mikla grósku og frumsköpun á vettvangi þeirra, meðal annars með aðkomu Sviðlistasjóðs. Það er mikilvægt að tryggja aðstöðu til sýningahalds fyrir þessa hópa á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

„Tjarnarbíó og sjálfstæðu sviðslistahóparnir eru gríðarlega mikilvægur hluti í menningarflórunni, þar er mikil nýsköpun og spennandi grasrótarstarf sem skiptir heilmiklu máli við hliðina á því merka starfi sem rótgrónar stofnanir í sviðslistunum bjóða uppá“, segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

„Í góðu samstarfi við menningar- og viðskiptaráðherra viljum við ekki einungis styrkja starfsemi Tjarnarbíós til skemmri tíma heldur renna styrkari stoðum undir framtíð starfseminnar með því að finna leiðir til að bæta aðstöðuna og rekstrargrundvöllinn til framtíðar.“

Á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins er einnig unnið að gerð fyrstu sviðslistastefnu fyrir Ísland þar sem innviðamál sviðslista verða meðal annars til skoðunar. Á undanförnum árum hefur umgjörð sviðslista verið styrkt, meðal annars með samþykkt fyrstu heildstæðu sviðslistalaganna á Alþingi og stofnun Sviðslistamiðstöðvar sem hefur það hlutverk að styðja við íslenskar sviðslistir og aðstoða sviðslistafólk að koma sér á framfæri á Íslandi og erlendis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum