Hoppa yfir valmynd
26. september 2023 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra heimsækir Austurland

Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn, Margrét María Sigurðardóttir lögreglustjóri, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Karl Axelsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.  - mynd

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra heimsótti stofnanir á Austurlandi í byrjun september.  

Héraðsdómur Austurlands

Heimsókn ráðherrans á Austurland hófst hjá héraðsdómi Austurlands að Lyngási. Þar tóku á móti ráðherra og fylgdarliði Ólafur Ólafsson dómstjóri og Eydís Eyþórsdóttir. Ráðherra hafði sérstakt orð á því að dómsalur héraðsdóms Austurlands væri einstaklega virðulegur og vistlegur. Eftir að hafa fengið kynningu á starfseminni á Austurlandi spunnust nokkrar umræður um aðbúnað og starf minni héraðsdóma á landsbyggðinni. Nokkuð var rætt um frumvarp dómsmálaráðherra um sameiningu héraðsdómstólanna og urðu samræður lifandi og fróðlegar.

Ólafur Ólafsson dómstjóri í héraðsdómi Austurlands, Guðrún Hafsteinsdóttir og Eydís Eyþórsdóttir dómritari.

Lögreglustjórinn á Austurlandi

Þegar dómstólinn hafði verið kvaddur lá leið ráðherra niður á Eskifjörð þar sem lögreglan á Austurlandi var heimsótt. Margrét María Sigurðardóttir lögreglustjóri á Austurlandi ásamt samstarfsmönnum bauð ráðherra velkominn og farið var í skoðunarferð um stöðina á Eskifirði. Að lokinni skoðun fór lögreglustjóri yfir kynningu á lögreglunni á Austurlandi, umdæminu, starfsfólki og helstu verkefnum sem einkenna landsfjórðunginn.

Umdæmi lögreglustjórans á Austurlandi er um 15.700 ferkílómetrar sem gerir það að næst stærsta umdæmi landsins, einungis Suðurlandsumdæmi er stærra. Á svæðinu eru sex starfsstöðvar; á Eskifirði þar sem er aðalstöð lögreglu og lögreglustjóri hefur aðsetur, Egilsstöðum, Fáskrúðsfirði, í Neskaupstað, á Djúpavogi og Vopnafirði. Rannsóknardeild er á Fáskrúðsfirði sem sinnir öllu starfssvæðinu og eru stærri brot og umfangsmeiri að jafnaði rannsökuð þar. Önnur mál eru að jafnaði til rannsóknar í almennri deild. Verkefni lögreglu eru fjölbreytt á svo stóru starfssvæði með hálendiseftirliti meðal annars og virku eftirliti í tengslum við ferðir Norrænu sem siglir vikulega allt árið til hafnar á Seyðisfirði.

Sérstaða embættisins er dreifð byggð með tólf byggðakjörnum allt frá Djúpavogi í suðri til Vopnafjarðar í norðri. Stærstur þeirra er Egilsstaðir með sína ríflega tvö þúsund og fimm hundruð íbúa, en íbúafjöldi svæðisins er rétt um tíu þúsund. Stór og alvarleg almannavarnarmál hafa verið áberandi á Austurlandi á undanförnum misserum og mjög oft hefur þurft að grípa til rýminga í þéttbýli.

Starfsfólk lögreglunnar á Austurlandi með dómsmálaráðherra.

Sýslumaðurinn á Austurlandi

Heimsókn ráðherra á Austurlandi lauk hjá Lárusi Bjarnasyni sýslumanni Austurlands og starfsfólki hans á Eskifirði. Á skrifstofum sýslumanns fékk ráðherra kynningu á verkefnum sýslumanns á Austurlandi. Ráðherra flutti starfsfólki þær fréttir að ekki yrði lagt fram frumvarp um sameiningu sýslumannsembætta eins og tilkynnt hafði verið fyrr á árinu. Tíminn yrði notaður til aukins samráðs og starfsmenn og sýslumenn fengju tækifæri til að sýna fram á hverju mætti áorka með öflugu samstarfi þvert á embætti og aukinni stafrænni þjónustu.

 

Birna Kristín Einarsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, Lárus Bjarnason sýslumaður á Austurlandi og Íris Árnadóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum