Hoppa yfir valmynd
26. september 2023 Forsætisráðuneytið

Norrænir jafnréttisráðherrar funduðu í Reykjavík

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stýrði fundi í Norrænu ráðherranefndinni um jafnrétti og hinsegin málefni í dag. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár en nefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna.

Á fundinum var farið yfir sýn ráðherranna á nýja samstarfsáætlun nefndarinnar fyrir árin 2025-2030 en vinna við hana stendur yfir.

Einnig var farið yfir verkefni nefndarinnar í tengslum við Norrænan vegvísi sem ráðherranefndin innleiddi á síðasta ári með það að markmiði að vinna gegn því bakslagi sem orðið hefur í baráttunni fyrir jafnrétti kynja og réttindum hinsegin fólks. Meðal annars var að frumkvæði Íslands, samþykkt að hleypa af stokkunum nýju verkefni um skaðleg áhrif hatursorðræðu og öráreitni og er verkefninu ætlað að ná til barna og ungmenna í gegnum samfélagsmiðla.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:

„Það er gríðarlega mikilvægt að halda áfram baráttunni gegn bakslaginu gegn jafnrétti kynjanna og réttindum hinsegin fólks. Við höfum langa og góða reynslu af norrænu samstarfi á sviði jafnréttismála og samstarf Norðurlandanna um réttindi hinsegin fólks hefur einnig verið farsælt á undanförnum árum. Það er skylda okkar að leggja okkar af mörkum þar sem réttindi kvenna og hinsegin fólks eiga undir högg að sækja.“

Ráðherrarnir tóku einnig þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnu hinsegin félagasamtaka á Norðurlöndum.

  • Norrænir jafnréttisráðherrar funduðu í Reykjavík - mynd úr myndasafni númer 1
  • Norrænir jafnréttisráðherrar funduðu í Reykjavík - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum