Hoppa yfir valmynd
27. september 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Samningar hafa náðst í kjaradeilu hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Samningar hafa náðst í kjaradeilu hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands - myndSinfóníuhljómsveit Íslands

Samningar hafa náðst í kjaradeilu hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Skrifað var undir samninga hjá ríkissáttasemjara á sjöunda tímanum í kvöld.

Rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) hefur verið erfiður undanfarin ár, einkum vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru sem olli samdrætti í tónleikahaldi hljómsveitarinnar.

Starfsmannafélag SÍ (SMFSÍ) vísaði kjaradeilu sinni við samninganefnd ríkisins til ríkissáttasemjara í júní síðastliðnum.

Hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands samþykktu í byrjun september að boða til verkfalls. Fyrsta vinnustöðvunin var fyrirhuguð á morgun, 28. september, en áhersla var lögð á að leita allra leiða til að ekki kæmi til verkfalls.

Innan vébanda SÍ hefur mikil vinna átt sér stað undanfarið til að bregðast við fjárhagsstöðu hljómsveitarinnar. Engu að síður var ljóst að ef til vinnustöðvunar kæmi, gæti hljómsveitin ekki staðið við skuldbindingar sínar og grafið væri undan möguleikum hljómsveitarinnar til að afla sértekna.

„Sinfóníuhljómsveit Íslands gegnir lykilhlutverki í íslensku tónlistarlífi. Það er því afar ánægjulegt að búið sé að semja. Verkfall hefði getað haft verulega neikvæð áhrif á menningarlífið í landinu,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum