Hoppa yfir valmynd
27. september 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Undirbúningur í gangi varðandi breytingar á Loftslagsráði - ráðið verði þróað og eflt

Þróa þarf og efla Loftslagsráð svo það geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu til jafns við sambærileg ráð nágrannaríkja okkar. Þetta kemur fram í minnisblaði sem  Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti fyrir ríkisstjórn í gær.

Loftslagsráð, sem er sjálfstætt starfandi ráð hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum, en ráðið lauk fjögurra ára skipunartíma sínum fyrir skemmstu.

Ráðið var sett á fót í kjölfar breytinga á lögum um loftslagsmál árið 2019 og er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kveðið á um að hlutverk Loftslagsráðs skuli tekið til endurskoðunar, með aukinni áherslu á ráðgefandi hlutverk og vísindastarf, auk aðhalds- og eftirlitshlutverks gagnvart stjórnvöldum.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið lét vinna skýrslu um starfsemi Loftslagsráðs, þar sem settar eru fram ábendingar um vænlegar leiðir til frekari ávinnings af starfi ráðsins. Dr. Ómar H. Kristmundsson var fenginn til til verksins og telur hann mikilvægt að ráðið verði í auknum mæli skipað sérfræðingum sem hafa þekkingu á loftslagsmálum og hinum margvíslegu víddum þeirra og að samráð ráðsins við hagaðila verði eflt.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Loftslagsráð hefur skilað góðri grunnvinnu og haft jákvæð áhrif, meðal annars með því að brýna stjórnvöld til stefnumótunar, efla stöðu þekkingar um eðli loftslagsvandans og viðbragða við honum. Nú þurfum við síðan að leggja aukna áherslu á ráðgefandi hlutverk ráðsins og vísindastarf og er vinna í gangi í ráðuneytinu með það að markmiði að við fáum þróað og eflt Loftslagsráð svo það öðlist sambærilegt hlutverk og í nágrannaríkjum okkar.“

Meðal þeirra vinnu sem nú er í gangi og sem unnið verður í samstarfi við formann Loftslagsráðs er undirbúningur að:

  • Málþingi um reynsluna af starfi ráðsins í núverandi mynd og tengdum þáttum í loftslagslögum.
  • Frumvarpi til laga um breytingar á lögum um loftslagsmál á komandi vorþingi.
  • Drögum að hæfnisviðmiðum vegna vals og tilnefninga á meðlimum í Loftslagsráð.
  • Lengd og eðli skipunartíma svo ráðið sé alltaf starfhæft og í fullri faglegri virkni.
  • Tryggja stjórnsýslulega stöðu Loftslagsráðs samkvæmt lögum um loftslagsmál.
  • Efla starfsemi skrifstofu Loftslagsráðs.

Ráðherra hefur skipað Halldór Þorgeirsson formann Loftslagsráðs og Brynhildi Davíðsdóttur sem varaformann ráðsins og munu þau vinna að undirbúningi starfs ráðsins á komandi starfsári þar til nýtt Loftslagsráð hefur verið hefur verið fullskipað, eigi síðan en 1. desember nk.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum