Hoppa yfir valmynd
2. október 2023 Dómsmálaráðuneytið

Fleiri verkefni á sviði ættleiðinga færð til sýslumanns og þjónusta við uppkomna ættleidda aukin

Tiltekin verkefni á sviði ættleiðinga, sem hingað til hafa verið á verksviði Íslenskrar ættleiðingar, voru færð til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu með nýrri reglugerð um ættleiðingar sem tók gildi 1. október.  Meðal breytinga er að nú mun sýslumaður bjóða uppkomnum ættleiddum upp á ráðgjöf einstaklingum að kostnaðarlausu. Í nýju reglugerðinni um ættleiðingar, nr. 1030/2023, er einnig að finna breytingar sem snúa að skilyrðum sem umsækjendur þurfa að uppfylla. Reglugerðin kemur í stað núgildandi reglugerðar um ættleiðingar nr. 238/2005, en drög að reglugerðinni fóru til kynningar í samráðsgátt í júní.

Þá voru jafnframt gerðar breytingar á reglugerð nr. 453/2009 um ættleiðingarfélög sem einnig tóku gildi 1. október.

Yfirfærsla verkefna til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

Verkefnin sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu mun framvegis annast, ásamt núverandi verkefnum, eru eftirfarandi:

  • Að veita samþykki fyrir því að ættleiðing tiltekins barns megi fara fram í samræmi við 17. gr.c Haagsamningsins. Sýslumaður sér um að yfirfara gögn frá upprunaríki um ættleiðingu tiltekins barns sem upprunaríki hefur parað við umsækjendur. Sýslumaður leitar umsagnar barnalæknis hér á landi og sér um lögfræðilegt mat á gögnum frá upprunaríki, en tilgangurinn er að tryggja að gögnin séu rétt og barnið sé löglega ættleiðanlegt.

  • Ábyrgð á því að skrifa og senda eftirfylgniskýrslur um stöðu barns eftir komu þess til landsins til upprunaríkis.

  • Að bjóða uppkomnum ættleiddum, sem náð hafa 18 ára aldri, upp á ráðgjöf. Gert er ráð fyrir að sýslumaður geti boðið upp á 5 viðtöl einstaklingum að kostnaðarlausu. Leggja þarf fram beiðni hjá sýslumanni, sjá nánar hér: Þjónusta og ráðgjöf fyrir uppkomna ættleidda | Ísland.is (island.is)

Aldur umsækjenda

Gert er ráð fyrir að umsækjendur á aldrinum 25 til 50 ára geti sótt um forsamþykki fyrir því að ættleiða barn á aldrinum 0 til 5 ára og/eða barn eldra en 5 ára. Er miðað við hámarksaldur þess umsækjanda sem eldri er. Forsamþykki fyrir því að ættleiða barn á aldrinum 0 til 5 ára fellur úr gildi þegar sá umsækjandi sem eldri er nær 51 árs aldri.

Þá er gert ráð fyrir að umsækjendur á aldrinum 51 til 55 ára geti sótt um forsamþykki fyrir því að ættleiða barn eldra en 5 ára. Er miðað við hámarksaldur þess umsækjanda sem eldri er. Forsamþykki fyrir því að ættleiða barn sem er eldra en 5 ára fellur úr gildi þegar sá umsækjandi sem eldri er nær 56 ára aldri

Einhleypir umsækjendur

Ekki er lengur gerð krafa um að einhleypur umsækjandi sé „sérstaklega hæfur umfram aðra“ heldur er gerð krafa um að umsækjandi sé vel hæfur og einnig má líta til menntunar viðkomandi og þess hvort tengsl séu við heimaland barns og jafnframt hvort umsækjandi geti leitað stuðnings frá nákomnum vegna ættleiðingar.

Heilsufar

Í stað þess að telja upp tiltekna sjúkdóma eða líkamsástand er miðað við almennt mat á heilsufari.

Sambúðartími

Í stað þess að hjón þurfi að vera í samfelldri sambúð í 3 ár er miðað við 2 ár.

Námskeið

Gert er ráð fyrir að áður en umsækjendur sækja um forsamþykki hjá sýslumanni skulu þeir leggja fram staðfestingu á því að þeir hafi sótt námskeið eða hafi skuldbundið sig til að sækja námskeið á vegum löggilts ættleiðingarfélags um ættleiðingar erlendra barna.

Alþjóðleg fjölskylduættleiðing

Áréttað er hlutverk sýslumanns að því er snýr að alþjóðlegum fjölskylduættleiðingum þar sem löggilt ættleiðingarfélag hefur ekki milligöngu um ættleiðingu.

Fylgigögn

Í reglugerðinni eru gerðar breytingar sem snúa að kröfum um fylgigögn, s.s. fæðingarvottorð og vottorð um heilsufar sem sýslumaður telur nauðsynlegt að aflað verði. Einnig voru gerðar  breytingar þess efnis að sýslumaður kalli eftir skattframtölum umsækjenda fyrir síðustu 3 ár í stað 2 ára til samræmis við framkvæmdina eins og hún er í dag.

Reglugerðina má finna hér: stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=80f59280-6fd5-4326-b2ba-1859751c1c38

Breytingar á reglugerð um ættleiðingarfélög

Gerðar voru breytingar á reglugerð um ættleiðingarfélög nr. 453/2009 til samræmis við nýja reglugerð um ættleiðingar. Á meðal breytinga var niðurfelling hlutverks og ábyrgðar ættleiðingarfélags á nokkrum verkefnum sem tengjast ættleiðingum en hafa nú verið færð til sýslumanns. Einnig er mælt fyrir um fjölda stjórnarmanna og að ættleiðingarfélag þurfi að koma á varasjóði til að mæta þeirri kröfu að félagið skuli haga rekstri með þeim hætti að öruggt sé að unnt verði að ljúka ættleiðingarmálum, er kunna að vera til meðferðar á vegum þess, ef það verður lagt niður.

Breytingar á reglugerð um ættleiðingarfélög  má finna hér: stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=6bef4450-e8da-4fa2-b413-6d6649008114

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum