Hoppa yfir valmynd
4. október 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Aukið jafnræði og sjálfbærari fjármögnun vegasamgangna

Árangur í orkuskiptum kallar á að fjármögnun vegasamgangna verði óháð jarðefnaeldsneyti. Stefnt er að innleiðingu nýs, einfaldara og sanngjarnara kerfis á næstu árum, þar sem greitt er almennt kílómetragjald í stað sértækra gjalda á bensín og olíu sem nú eru í gildi. Þannig verður kerfið sjálfbærara og styður við áframhaldandi uppbyggingu og viðhald vegakerfisins samhliða orkuskiptum til framtíðar.

Aðlögun fjármögnunar vegasamgangna að orkuskiptum fer fram í tveimur áföngum:

  • Fyrra skrefið verður stigið á næsta ári með innleiðingu kílómetragjalds fyrir notkun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla sem hafa hingað til borið takmarkaðan kostnað af notkun vegakerfisins.
  • Seinna skrefið verður stigið í ársbyrjun 2025 þegar dísel- og bensínbílar fara einnig að greiða kílómetragjald. Samhliða er gert er ráð fyrir að eldri gjöld á borð við vörugjöld af eldsneyti muni eftir atvikum lækka eða falla niður, þó kolefnisgjald verði áfram greitt.

Með innleiðingu á nýju kerfi í tveimur skrefum nær það einungis til hluta bílaflotans á fyrra ári. Þannig verður hægt að draga lærdóma af innleiðingunni og styrkja fyrirkomulagið enn frekar til framtíðar.

Um þetta er fjallað í áformum um lagasetningu sem birt hafa verið í samráðsgátt.

Jákvæð þróun hefur veikt fjármögnun

Miklar framfarir í þróun sparneytnari bíla hafa leitt til þess að nýrri bílar geta ekið töluvert fleiri kílómetra á hverjum lítra eldsneytis. Þessi þróun hefur á sama tíma veikt getu ríkissjóðs til að fjármagna viðhald og uppbyggingu vega þar sem sú tekjuöflun byggist að stórum hluta á föstu gjaldi á hvern lítra eldsneytis.

Samhliða þessu er Ísland komið í fremstu röð meðal þjóða í orkuskiptum í vegasamgöngum, ekki síst fyrir tilstilli mikils skattastuðnings stjórnvalda. Þannig eru rafmagns- og tengiltvinnbílar, sem greiða mjög takmarkað fyrir notkun vega, orðnir tæpur fimmtungur af fólksbílum í umferð. Hlutfall þeirra af nýskráðum fólksbílum á þessu ári er um 50%, en 76% ef frá eru taldar nýskráningar bílaleiga.

 

Mynd 1: Hraður árangur hefur náðst í orkuskiptum fólksbíla á undanförnum árum og er hlutfall rafmagns- og tengiltvinnbíla nú 18% af fólksbílum í umferð. Heimild: Samgöngustofa.

Undanfarið hefur jafnt og þétt fjarað undan tekjum ríkissjóðs af olíu- og bensíngjöldum, eins og myndin hér að neðan sýnir, og mun sú þróun að óbreyttu halda áfram. Stjórnvöld stefna enn fremur á að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 og að nýskráningum bensín- og díselbíla verði hætt áratug fyrr. Til að styðja við markmið um viðhald og uppbyggingu vegasamgangna til framtíðar er því mikilvægt að laga kerfið að nýjum veruleika.

 

Mynd 2: Tekjur af umferð (bensín og olíugjöld á dælu) - yfir 30% lækkun miðað við VLF

Aukin umferð kallar á samgöngubætur

Samhliða árangri í orkuskiptum og minni eldsneytiseyðslu bílaflotans hefur fólki fjölgað og umferð aukist, með vaxandi álagi á vegakerfið og þörf fyrir samgöngubætur. Því er mikilvægt að til staðar sé kerfi sem getur stutt fjármögnun uppbyggingar og viðhalds vegasamgangna í takt við notkun.

Stjórnvöld hafa fjárfest í umfangsmiklum samgöngubótum á undanförnum árum til að bregðast við auknu álagi. Í drögum að þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2024-2038 eru enn frekari framkvæmdir boðaðar með það að markmiði að tryggja greiðar og öruggar vegasamgöngur um allt land.

Jafnræði óháð orkugjafa

Jafnræði meðal notenda vegakerfisins er lykilatriði í þróun þess til framtíðar, þar sem allir ættu að greiða í samræmi við notkun óháð orkugjafa. Lögð er áhersla á að gjöld endurspegli þann kostnað sem notkun leiðir af sér. Með innleiðingu kílómetragjalds á næsta ári fyrir rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla munu notendur þeirra greiða líkt og notendur bíla með aðra orkugjafa.

Kostnaður vegna rekstrar slíkra bíla verður hins vegar áfram umtalsvert minni. Á þessu ári greiðir eigandi bensínbíls með meðaleyðslu 7 l á hundrað km, sem ekur 14 þús. km, um 84 þús.kr. á ári fyrir notkun í formi vörugjalda á bensín, sem líta má á sem ígildi kílómetragjalds. Það jafngildir 7 þ.kr. á mánuði. Í áætlunum um verkefnið hefur verið miðað við að kílómetragjald verði 6 kr. á næsta ári á rafmagns- og vetnisbíla og því mun eigandi rafmagnsbíls sem ekur sömu vegalengd greiða sama gjald fyrir afnot vegakerfisins og bensínbíllinn.

Tengiltvinnbílar munu hins vegar greiða 2 kr. kílómetragjald á næsta ári, eða 1/3 á við rafmagnsbíla – enda nota þeir bæði rafmagn og jarðefnaeldsneyti og greiða áfram tilheyrandi gjöld fyrir notkun hins síðarnefnda.

Myndin hér að neðan sýnir samanburð á helstu kostnaðarliðum við dæmigerðan bensínbíl og rafmagnsbíl árið 2024 að viðbættu kílómetragjaldi fyrir rafmagnsbíla á næsta ári.

 

Mynd 3: Samanburður á helstu kostnaðarliðum (þ.kr.) vegna bensínbíls og rafmagnsbíls árið 2024 að viðbættu 6 kr. kílómetragjaldi sem verður innleitt fyrir rafmagnsbíla 2024. Miðað er við meðaleyðslu og meðalakstur fólksbíla 2022.

Einföld og aðgengileg gjaldtaka

Kílómetragjald verður áætlað og greitt með svipuðum hætti og gjöld fyrir þjónustu veitu- og orkufyrirtækja vegna sölu á heitu vatni og rafmagni til heimila og fyrirtækja. Þannig verður greitt mánaðarlega og byggt á fjölda ekinna kílómetra á tímabilinu. Gjaldtakan verður byggð á akstursáætlun á grundvelli upplýsinga sem umráðamenn bíla skrá inn á Ísland.is, í smáforriti eða á vefsvæði. Einnig verður þó í boði önnur skráningarleið fyrir þá sem ekki geta nýtt Ísland.is.

Áframhaldandi stuðningur við orkuskipti

Samhliða innleiðingu á samræmdu kerfi til fjármögnunar vegakerfisins munu stjórnvöld gera breytingar á stuðningi við orkuskipti í vegasamgöngum. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 verða teknir upp beinir styrkir úr Orkusjóði í stað ívilnana sem falist hafa í afslætti af virðisaukaskatti við kaup á rafmagns- og vetnisbílum. Úthlutanir úr Orkusjóði eru á hendi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Markmiðið með þessari breytingu er að auka gagnsæi og gera stuðning við orkuskipti markvissari. Nánari útfærsla á þessu nýja fyrirkomulagi verður kynnt á næstunni af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, en gert er ráð fyrir að framhald verði á stuðningi við kaup á hreinorkubílum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum