Hoppa yfir valmynd
4. október 2023 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Friðarráðstefna í Reykjavík: Norræn samstaða um frið

Framtíðarsýn Norðurlanda í friðarmálum er umfjöllunarefni friðarráðstefnu sem fram fer 10.-11. október nk. í Hörpu.Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands heldur ráðstefnuna í samstarfi við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Yfirskrift íslensku formennskunnar er „Norðurlönd – afl til friðar“.

Ráðstefnan ber yfirskriftina The Imagine Forum: Nordic Solidarity for Peace og í kynningu er bent á að umræðan um frið, afvopnun og friðsamlega lausn deilna hafi sjaldan verið mikilvægari.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flytur opnunarávarp ráðstefnunnar. „Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú þegar stríðsátök geisa víða um heim að ræða um frið og friðsamlegar lausnir. Við vitum að friður er forsenda allra framfara og farsældar,“ segir Katrín.

Aðalræðu flytur Amina J. Mohammed, varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, en hún kemur hingað til lands í boði Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra, sem einnig tekur þátt í ráðstefnunni.

„Forsenda friðar og afvopnunar er að öll ríki virði alþjóðalög og samninga, aðeins þá fáum við notið frelsis, velsældar og friðar. Við stöndum á sögulegum tímamótum, og því hefur sjaldan verið jafn áríðandi að koma saman og ræða um frið. Viðbrögð okkar núna, eða skortur á viðbrögðum, munu fylgja okkur um langan tíma,“ segir Þórdís Kolbrún.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, flytur jafnframt ávarp og tekur þátt í umræðum.

„Rödd Íslands skiptir máli á alþjóðavettvangi. Í íslensku formennskunni í Norrænu ráðherranefndinni leggjum við sérstaka áhersla á frið og mikilvægi friðar sem undirstöðu mannréttinda, velferðar, kvenfrelsis og umhverfis- og loftslagsverndar. Friðarmál eiga að vera einn af hornsteinum norræns samstarfs og saman geta Norðurlöndin talað sterkri röddu fyrir friðsamlegum lausnum og afvopnun,“ segir Guðmundur Ingi.

Reynslumiklir þátttakendur

Ráðstefnan er skipulögð í samstarfi við helstu friðarrannsóknarstofnanir á Norðurlöndunum. Þátttakendur koma vítt og breitt að og hafa mikla reynslu af málefninu. Meðal erlendra þátttakenda eru:

  • Sanam Naraghi Anderlini, stofnandi og framkvæmdastjóri The International Civil Society Action Network (ICAN)

  • Dag Nylander, framkvæmdastjóri Norwegian Centre for Conflict Resolution sem meðal annars vann sem sáttamiðlari við friðarferla í Kólumbíu 

  • Pashtana Durrani, mannréttindafrömuður, aktívisti og stofnandi samtakanna Learn Afghan 

  • Mahbouba Seraj, fjölmiðla- og kvenréttindakona frá Afganistan 

  • Andriy Sadovyy, borgarstjóri Lviv í Úkraínu

  • Jannie Lilja, rannsóknastjóri hjá friðarrannsóknastofnuninni í Stokkhólmi, SIPRI

Markmið friðarráðstefnunnar í Reykjavík er að leiða saman öflugan hóp skapandi hugsuða til að taka þátt í samtali milli kynslóða um hvernig efla megi norrænt samstarf í þágu friðar.

Á ráðstefnunni eru margar málstofur, þar á meðal málstofa um konur og Afganistan. 

Ein af málstofunum á ráðstefnunni fjallar um alþjóðlegar áskoranir og frið á 21. öldinni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum