Hoppa yfir valmynd
4. október 2023 Matvælaráðuneytið

Metnaðarfull framtíðarsýn í lagareldi kynnt

Matvælaráðherra kynnti drög að nýrri stefnumótun í lagareldi. - myndKristinn Magnússon

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti í morgun drög að nýrri stefnumótun lagareldis. Markmið stefnumótunarinnar ná til ársins 2040 og aðgerðaáætlun til ársins 2028. Fundurinn var opinn og í streymi.

„Gjaldtaka af greininni þarf að endurspegla að um nýtingu takmarkaðra auðlinda er að ræða“ sagði matvælaráðherra. „Það er grundvallaratriði að þau sem hagnast á nýtingu náttúruauðlinda landsins greiði af því sanngjarnt gjald. En það er ekki síður mikilvægt að við setjum okkur metnaðarfull, mælanleg, markmið í umhverfismálum og tímasetjum vörður á leiðinni til þeirra markmiða“.

Takmark stefnumótunarinnar er að framtíðaruppbygging í lagareldi byggi á skýrum viðmiðum sjálfbærrar nýtingar, vistkerfisnálgunar og varúðar. Áhersla er lögð á að eftirlit, vöktun og rannsóknir með framleiðslunni standist ítrustu kröfur til að koma megi í veg fyrir að greinin hafi neikvæð áhrif á umhverfið í framtíðinni.

Til að ná þessum markmiðum eru settir fram hagrænir hvatar sem ætlað er að stuðla að því að rekstraraðilar fjárfesti í besta fáanlega búnaði, vinnuaðferðum og hæfu starfsfólki. Jafnframt hafi framkvæmd og frammistaða einstakra rekstraraðila áhrif á leyfi þeirra til rekstrar.

Fjármagn til rannsókna og vöktunar á vegum Hafrannsóknastofnunar er tryggt auk fjármagns til eftirlits og leyfisveitinga Matvælastofnunar. Í stefnunni jafnframt lagt upp með að leyfishafar greiði sanngjarnt gjald fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum sem skili tekjum sem m.a. standi undir stjórnsýslu, rannsóknum og vöktun málaflokksins og nauðsynlegrar innviðauppbyggingar.

Þá er í stefnunni lögð til skipting á gjaldinu milli ríkis og sveitarfélaga til að tryggja að sveitarfélög geti fjármagnað nauðsynlega uppbyggingu innviða og þjónustu sem skapast af vexti greinarinnar.

  • Metnaðarfull framtíðarsýn í lagareldi kynnt - mynd úr myndasafni númer 1
  • Metnaðarfull framtíðarsýn í lagareldi kynnt - mynd úr myndasafni númer 2
  • Metnaðarfull framtíðarsýn í lagareldi kynnt - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum