Hoppa yfir valmynd
9. október 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ísland í fjórða sæti í Evrópu í könnun á stafrænni, opinberri þjónustu

Ísland fékk 88 stig af 100 í könnuninni og er í fjórða sæti.  - myndMynd/ESB

Ísland er í fjórða sæti í árlegri könnun meðal Evrópuríkja á stafrænni, opinberri þjónustu (eGovernment Benchmark) en síðustu árin hefur Ísland hækkað hratt á listanum. Ísland var í 11. sæti í könnuninni árið 2020, 7. sæti árið 2021 og 4. sæti í fyrra og í ár.

Í efstu þremur sætunum eru Malta, Eistland og Lúxemborg, en næst á eftir Íslandi koma Finnland, Holland, Litháen og Danmörk. Könnunin er ítarleg og tóku 35 Evrópuríki þátt í henni. Hún byggist m.a. á upplifun notenda, en Evrópusambandið hefur sett það markmið að bæta notendaupplifun og stafræna þjónustu hins opinbera. Einkunnagjöf í könnuninni (eGovernment Benchmark) byggist á fjórum meginflokkum - notendamiðaðri þjónustu, gagnsæi, kjarnaþjónustum og þjónustu þvert á landamæri.

Niðurstaðan sýnir að Ísland er vel yfir meðaltalinu í þremur af fjórum flokkum könnunarinnar. Ísland er í sjötta sæti þegar kemur að notendavænni, stafrænni þjónustu. Ísland er næst hæst ríkjanna þegar kemur að gagnsæi í stafrænni þjónustu, sem felur í sér að notendur fái góðar upplýsingar um hvað þurfi að gera til að nálgast eða nýta þjónustu. Ísland er í öðru sæti þegar kemur að kjarnaþjónustum hins opinbera og níunda sæti í stafrænni þjónustu yfir landamæri.

95% þrettán ára og eldri með rafræn skilríki

Þá er Ísland nefnt sem leiðandi þjóð í rafrænni auðkenningu og í hópi þeirra ríkja í Evrópu þar sem hægt er að nýta rafræn skilríki í meira en 90% tilfella þegar stafræn, opinber þjónusta er sótt. Notkun rafrænna skilríkja er afar útbreidd á Íslandi og eru um 95% landsmanna sem náð hafa 13 ára aldri með rafræn skilríki.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Það  er afar ánægjulegt að sjá að viðleitni okkar um fjárfestingu í stafrænum innviðum með áherslu á þjónustu við fólkið í landinu heldur áfram að bera ávöxt. Ísland hefur náð góðum árangri á síðustu árum við að bæta stafræna þjónustu og stendur nú í fremstu röð meðal þjóða í Evrópu. Við stefnum ótrauð áfram og viljum gera enn betur á komandi árum."

Nánar um mat á helstu meginflokkunum fjórum sem mældir eru í könnuninni:

Notendamiðuð þjónusta. Lagt er mat á það hvort þjónustan sé stafræn, farsímavæn og hversu góður stuðningur er þar við.

Gagnsæi. Metið er hvort stafrænu þjónustuferlin séu gegnsæ og hvort notandi sé þátttakandi í ferlinu og hafi góða yfirsýn.

Kjarnaþjónustur. Lagt er mat á hvort grunnkerfi og grunnþjónustur hins opinbera séu aðgengilegar. Dæmi um slíka þjónustu er stafræna pósthólfið á Ísland.is.

Þjónusta þvert á landamæri. Hér er lagt mat á hvernig stafræn þjónusta gagnast notendum í öðrum löndum. Meðal annars hvort hægt er að nálgast upplýsingar um þjónustur á öðru tungumáli en íslensku og hvort unnt er að nota rafræna auðkenningu þvert á landamæri sem er eitt af lykilatriðum meðal þjóða innan Evrópusambandsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum