Hoppa yfir valmynd
10. október 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Starfshópur skipaður um framtíð læknisþjónustu á Íslandi

Starfshópur skipaður um framtíð læknisþjónustu á Íslandi - myndStjórnarráðið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að kortleggja núverandi þörf fyrir læknisþjónustu og þróun hennar til framtíðar. Hópnum er ætlað að skilgreina forsendur fyrir gerð mönnunarviðmiða og mannaflaspá. Honum er líka ætlað að leggja til aðgerðir til næstu ára með mönnun, gæði og öryggi læknisþjónustu að leiðarljósi. Formaður starfshópsins er Ólafur Baldursson læknir.

Mönnun læknisþjónustu er ein af helstu áskorunum íslenskrar heilbrigðisþjónustu, enda ein af grunnstoðum hennar. Ákvörðun um skipun starfshópsins og verkefni hans er í samræmi við samkomulag sem gert var í tengslum við gerð kjarasamnings við Læknafélag Íslands í maí síðstliðnum.

Meðal þess sem hópnum er ætlað að skoða er núverandi þörf fyrir læknisþjónustu, mönnun og afköst í einstökum sérgreinum og hvort og hvernig núverandi mönnun og afköst uppfylla þjónustuþörfina. Við gerð viðmiða um mönnun til framtíðar skal m.a. byggt á framangreindum þáttum. Enn fremur á starfshópurinn að taka til skoðunar áhrif tækniframfara og aukinnar sjálfvirkni, m.a. með notkun gervigreindar, á þjónustu- og mönnunarþörf til framtíðar.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn kalli helstu hagaðila að borðinu við störf sín og nýti jafnframt þá vinnu sem þegar hefur farið fram innan heilbrigðisráðuneytisins við heildræna greiningu á mönnun heilbrigðiskerfisins á landsvísu.

Hópnum er ætlað að skila heilbrigðisráðherra fyrstu tillögum sínum fyrir lok þessa árs.

Í starfshópinn eru skipuð:

  • Ólafur Baldursson, án tilnefningar, formaður
  • Steinunn Þórðardóttir, án tilnefningar 
  • Theódór Skúli Sigurðsson, tilnefndur af Læknafélagi Íslands
  • Oddur Steinarsson, tilnefndur af Læknafélagi Íslands
  • Súsanna B. Ástvaldsdóttir, tilnefnd af Læknafélagi Íslands
  • Helga Þórðardóttir, tilnefnd af embætti landlæknis

Varamenn

  • Margrét Ólafía Tómasdóttir, tilnefnd af Læknafélagi Íslands
  • Sólveig Bjarnadóttir, tilnefnd af Læknafélagi Íslands
  • Teitur Ari Theódórsson, tilnefndur af Læknafélagi Íslands
  • Ragnheiður Baldursdóttir, tilnefnd af Læknafélagi Íslands
  • Anna Margrét Guðmundsdóttir, tilnefnd af embætti landlæknis

Starfsmaður starfshópsins er Ester Petra Gunnarsdóttir, heilbrigðisráðuneytinu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum