Hoppa yfir valmynd
11. október 2023 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra heimsækir Neyðarlínuna

Dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, heimsótti nýverið höfuðstöðvar Neyðarlínunnar í Skógarhlíð í Reykjavík. Á móti ráðherra tók Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar ásamt sínu samstarfsfólki.

Ráðherra og hennar fylgdarlið fékk kynningu á Neyðarlínunni, en starfsemi hennar er mun fjölbreyttari en flestir gera sér grein fyrir og verkefnin af ýmsum toga.

Neyðarsvörun 1-1-2

Þekktasta verkefnið og það stærsta er að sjálfsögðu neyðarsvörun í símanúmerið 112 og boðun viðbragðsaðila. Árið 2022 tók Neyðarlínan við ríflega 22 þúsund erindum í hverjum mánuði og var svartími Neyðarlínunnar að meðaltali 4,59 sekúndur. Yfir 80% af símtölum koma úr farsíma sem margir notendur treysta á, en farsímakerfi eru ekki rekin með þeim kröfum sem gerð eru til öryggiskerfa.

Tetra-kerfið

Auk þess að svara í 1-1-2 sér Neyðarlínan um rekstur Tetra-kerfisins, sem er fjarskiptakerfi viðbragðsaðila og mikilvægra innviða o.fl.. Til þess að samskipti innan kerfisins gangi snurðulaust rekur Neyðarlínuna um 200 senda um land allt. Um 11.000 notendur eru að kerfinu og rekstri kerfisins fylgir sú kvöð að Tetra-kerfið verður að virka þótt önnur fjarskipti bregðist. Uppitími kerfisins hefur verið mjög góður því miðkerfið er með 100% uppitíma og sendar yfir 99,95%.

Vaktstöð siglinga og fjarskiptakerfi

Auk þessa rekur Neyðarlínan vaktstöð siglinga fyrir sjófarendur og felur það í sér vöktun neyðarrása, sjálfvirka tilkynningaskyldu og viðvörunarkerfi skipa og rekstur fjarskiptastöðva á um 50 strandstöðvum.  Neyðarlínan rekur um 100 fjarskiptastaði sem eru samnýttir með fjarskiptafélögunum.

Ný kynslóð fjarskipta fram undan

Fram undan er undirbúningur fyrir notkun á nýrri tíðni 700Mhz sem úthlutað hefur verið til neyðar- og öryggisfjarskipta. Ný kynslóð neyðar- og öryggisfjarskiptakerfa mun, á næstu árum, taka við af Tetra-kerfinu sem er orðin 30 ára gömul tækni.  Nágrannalönd okkar vinna að sama marki um þessar mundir og óvissuástand í öryggismálum Evrópu hefur sett sinn svip á það verkefni.

Löggæslumyndavélar

Neyðarlínan hefur tæknilega aðkomu að um 250 löggæslumyndavélum á landinu en fyrirtækið býr orðið yfir mikilli þekkingu á hönnun og virkni myndavéla í löggæslutilgangi. Hefur Neyðarlínan enda komið að uppsetningu myndavéla allt frá árinu 2012. Myndavélar eru í 19 sveitarfélögum og aukin uppsetning er í skoðun hjá enn fleiri sveitarfélögum.

94% traust landsmanna

Stjórnendur Neyðarlínunnar kynntu að lokum ráðherra mjög jákvæðar niðurstöður úr traustkönnun á meðal almennings en Neyðarlínan trónir þar á toppnum og nýtur trausts 94% landsmanna. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum