Hoppa yfir valmynd
11. október 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Frumvarp um hagnýtingu opinna gagna í Samráðsgátt

Drög að frumvarpi um opin gögn hafa verið birt í Samráðsgátt. Frumvarpið fjallar um lágmarksreglur til að auka hagnýtingu gagna sem safnað er hjá opinberum aðilum í þeim tilgangi að örva nýsköpun og til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Markmiðið er að auka nýsköpun og hagvöxt með því að stórbæta aðgengi að opinberum upplýsingum til endurnota. Umsagnarfrestur er til 27. október 2023.

Meginregla laganna er sú að einkaaðilar geta hagnýtt gögn opinberra aðila, ef aðgangur að þeim er tryggður með upplýsingalögum. Bætt aðgengi að opinberum upplýsingum leiðir til efnahagslegs og samfélags ávinnings í formi nýsköpunar, betri ákvarðanatöku og betri opinberri þjónustu. OECD hefur metið að ávinningurinn geti verið allt að 1,5% af vergri landsframleiðslu.

Helstu breytingarnar sem lagðar eru til á lögunum eru eftirfarandi:

  • Skilgreind verða gagnasett sem geta skapað mikil efnahagsleg og samfélagsleg verðmæti (e. high-value datasets) m.a. til að takast á við samfélagslegar áskoranir, s.s. loftslagsbreytingar. Gagnasettin skulu vera aðgengileg án endurgjalds, á tölvulæsilegu sniði, veitt með þeim hætti að notandi geti sótt gögnin með sjálfvirkum hætti (í gegnum forritaskil, e. API) og með magnniðurhali, þar sem það á við. Gagnasettin eru t.d. landupplýsingar, hagskýrslur, upplýsingar úr fyrirtækjaskrá, ýmis konar umhverfisgögn og veðurgögn.
  • Það er lögð áhersla á aðgang að gögnum úr skynjurum og mælum, svokölluðum kvikum gögnum, um leið og þeim er safnað. Þetta eru t.a.m. veðurgögn, gögn um loftgæði og umferðargögn.
  • Rannsóknargögn, sem eru fjármögnuð af hinu opinbera, skulu að meginstefnu til vera aðgengileg til endurnota. 

Með frumvarpinu er tilskipun um opin gögn og endurnotkun opinberra upplýsinga (ESB) 2019/1024 innleidd í íslenskan rétt.  

Ráðuneytið hvetur öll til að kynna sér frumvarpið og senda inn umsögn eða ábendingu í gegnum Samráðsgáttina eða á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum