Hoppa yfir valmynd
12. október 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðstoð fyrir fjölskyldur fanga

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Sigrún Margrétar Óskarsdóttir, fangaprestur, undirrita samninginn. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Bjargráði 12 milljóna króna styrk. Bjargráð er þjónusta fyrir fjölskyldur og aðstandendur sem eru í þeim sporum að einhver nákominn bíður eftir afplánun, er í afplánun eða er laus úr henni. Þjónustan var sett á laggirnar á síðasta ári með stuðningi félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Þjónustan er öllum aðgengileg og veitt af aðilum sem eru menntaðir fjölskylduráðgjafar og hafa víðtæka reynslu af fjölskylduráðgjöf. Fjölskyldu- og sálgæsluþjónusta kirkjunnar útvegar húsnæði undir þjónustuna.

Margs konar tilfinningar geta vaknað yfir því að ástvinur sé á leið í afplánun eða sitji í fangelsi, til að mynda sorg, skömm, kvíði og ótti um afdrif viðkomandi. Börn fanga eru líka sérstakur hópur sem sinna þarf af skilningi og varfærni.

„Fangar eiga fjölskyldur og margvíslegar og flóknar tilfinningar og aðstæður koma upp í lífi þeirra. Þess vegna er mikilvægt að styðja við bakið á þeim,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Frá því að Bjargráð tók til starfa árið 2022 hafa ríflega 80 einstaklingar nýtt sér þjónustuna og í kringum 300 viðtöl verið tekin.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum