Hoppa yfir valmynd
13. október 2023 Dómsmálaráðuneytið

Alþjóðleg almannavarnaæfing í Reykjavík

Dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, leit á dögunum inn á æfingu þar sem Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra stóð fyrir þjálfun á vinnubrögðum og ferlum vegna óska um alþjóðlega aðstoð í almannavarnarástandi (e. host nation support eða HNS).  Æfingin fór fram með erlendum ráðgjöfum á þessu sviði og var mjög vel sótt bæði af viðbragðsaðilum og ráðuneytum. Um 80 manns tóku þátt í æfingunni, þar af 17 erlendir gestir frá Norðurlöndunum og frá EU Civil Protection Mechanism í Brussel.

Alvarleg sviðsmynd

Á æfingunni er varpað upp mjög alvarlegri sviðsmynd þar sem inflúensufaraldur leggst á þjóðina á mjög hörðum vetri sem veldur gríðarlegu álag á heilbrigðiskerfið, eldfjöll gjósa og snjóflóð falla, og innviðir eru ónýtir eða í hættu. Íslenska viðbragðskerfið er komið að þolmörkum í þessari sviðsmynd og íslensk stjórnvöld meta ástandið svo að það þurfi að óska eftir alþjóðlegri aðstoð (e. host nation support). Alþjóðleg aðstoð við þessar aðstæður getur verið af ýmsum toga: Hjálparsveitir, björgunarbúnaður, læknabúnaður, leitarhundar o.fl. Það sem þarf að æfa eru ferlar þegar kallað yrði eftir slíkri aðstoð, hvernig slíkri aðstoð yrði komið inn í landið, hvernig björgunaraðgerðir innanlands yrðu skipulagðar og hvernig og hvenær erlent hjálparlið yfirgefur að lokum landið.

Alþjóðleg aðstoð og Haga-samstarfið

Alþjóðleg aðstoð í almannavörum (HNS) er meðal þriggja markmiða Haga samstarfsins fyrir árin 2022-2025, en það er norrænt samstarf um almannavarnir sem Ísland tekur þátt í. Þá er í stefnu stjórnvalda í almanna- og öryggismálum frá 2021 fjallað um mikilvægi þess að móta HNS skýrari umgjörð hér á landi, þ.m.t. lagalega. Lærdómurinn af þessari æfingu mun án efa nýtast vel í þeirri vinnu.

Stór hópur sérfræðinga, viðbragðsaðila og opinberra fulltrúa frá 11 löndum tók þátt í æfingunni.

Stór hópur sérfræðinga, viðbragðsaðila og opinberra fulltrúa frá 11 löndum tók þátt í æfingunni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum