Hoppa yfir valmynd
13. október 2023 Utanríkisráðuneytið

Leiðtogafundur JEF í Svíþjóð

Frá leiðtogafundi JEF í Svíþjóð. - myndKristian Pohl/Government offices of Sweden

Öryggi og varnir Evrópu voru megin fundarefni leiðtogafundar Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (JEF) sem lauk í Svíþjóð í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, sótti fundinn fyrir hönd forsætisráðherra. Ríkin ræddu þróun öryggismála, áframhaldandi stuðning við varnarbaráttu Úkraínu og framtíðarþróun JEF-samstarfsins. 

„Samstarfið við okkar helstu nágranna og vinaríki í Norður-Evrópu hefur sennilega aldrei verið eins mikilvægt og núna í ljós árásarstríðs Rússa og mikillar og vaxandi spennu í alþjóðamálum. Þetta er hópur ríkja sem er mjög líktþenkjandi og ég tel ákaflega mikilvægt fyrir Ísland að rækta þetta samstarf af metnaði”, segir Þórdís Kolbrún, utanríkisràðherra. 

Ríki Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar hafa verið í fararbroddi þeirra ríkja sem veitt hafa Úkraínu stuðning, bæði fjárhagslegan- og pólitískan stuðning en einnig hvað varðar þjálfun, búnað, hergögn og fleira. Á fundinum samþykktu leiðtogarnir tíu ára stefnu JEF en í stefnunni er stuðningur ríkjanna við Úkraínu enn frekar áréttaður. 

Þá var rætt um hvernig efla megi viðnámsþol og heildrænar varnir ríkja til þess að bregðast við fjölþáttaógnum og voru viðbragðskostir Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar einnig kynntir. Á fundinum ræddu leiðtogarnir árás Hamas á Ísrael og hvöttu til þess að alþjóðalög yrðu virt. Gefin var út sameiginleg yfirlýsing í kjölfar fundarins. 

JEF er samstarfsvettvangur í öryggis- og varnarmálum þar sem Norðurlöndin eiga aðild, Eystrasaltsríkin, Holland og Bretland, sem leiðir samstarfið.

Utanríkisráðherra átti einnig fundi í Stokkhólmi með Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar um þróun alþjóðamála, tvíhliða samstarf ríkjanna og mikilvægi þess að efla samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þá fundaði ráðherra með fulltrúum Business Sweden um tækifæri viðskiptum og Carl Bildt um  stöðu alþjóða- og öryggismála.

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar. - mynd
  • Leiðtogafundur JEF í Svíþjóð - mynd úr myndasafni númer 2
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum