Hoppa yfir valmynd
16. október 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Árangurstengd fjármögnun háskóla birt í Samráðsgátt

Árangurstengd fjármögnun háskóla birt í Samráðsgátt  - myndHáskóli Íslands

Drög að nýjum reglum um fjárframlög til háskóla hafa verið birt í Samráðsgátt. Reglurnar lýsa forsendum og samsetningu fjárframlaga úr ríkissjóði til háskóla en um er að ræða gagngera kerfisbreytingu á fjármögnun háskólanna frá reglunum sem settar voru árið 1999. Umsagnarfrestur er til 12. nóvember 2023.

Kallað hefur verið eftir breytingum á fjármögnun háskóla allt frá árinu 2007 og hefur vinna við heildarendurskoðun staðið yfir í ráðuneytinu í nokkurn tíma. Núverandi fjármögnun háskóla byggir á reglum nr. 656/1999, um fjárveitingar til háskóla sem settar voru með stoð í 20. gr. þágildandi laga um háskóla, nr. 136/1997.

Með reglunum fylgir ítarleg greinargerð sem ætlað er að varpa ljósi á þær breytur sem saman mynda nýja og árangurstengda fjármögnun háskóla. Greinargerðin inniheldur jafnframt útreikninga og annað ítarefni sem styður við fjármögnunina.

Nýir hvatar fyrir háskóla með nýju fjármögnunarlíkani

Við endurskoðun á fjármögnun háskóla voru nokkur sjónarmið höfð að leiðarljósi. Hið nýja fjármögnunarlíkan skyldi vera gagnsætt og einfalt, stuðla að gæðum, vera árangurstengt, mælanlegt og auka stöðugleika í fjárveitingum. Hinu nýja líkani er ætlað að fela í sér hvatningu og umbun til háskólanna fyrir að hlúa vel að og styðja við nemendur sína til að ná árangri í námi. Helstu breytingar sem koma fyrir í árangurstengdri fjármögnun háskóla eru eftirfarandi:

  • Aukin áhersla á brautskráningar nemenda
  • Reikniflokkum fækkað úr fimmtán í fjóra
  • Mælikvarðar um loknar einingar í stað þreyttra eininga
  • Nýir mælikvarðar fyrir mat á rannsóknavirkni
  • Samfélagslegt hlutverk háskóla betur skilgreint
  • Stefnumótandi framlög sett fram á skýrari máta
  • Gagnsæi aukið og skýrir hvatar settir fram

Ný árangurstengd fjármögnun samanstendur af reiknilíkani og stefnumiðaðri fjárveitingu í samræmi við þá nálgun sem sett var fram í skýrslu starfshóps um fjárveitingar til háskóla. Reiknilíkan er aðferð við að útdeila opinberu fjármagni til háskóla og er markmið þess einkum að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika fjárveitinga, auka árangur í rekstri stofnana og svigrúm til breytinga. Þó að ákveðnar forsendur liggi til grundvallar reiknilíkani fá háskólar eina heildarupphæð frá hinu opinbera og eru óbundnir af forsendum ráðuneytisins við skiptingu á milli sviða og deilda skólanna. Þetta fyrirkomulag er hluti af lögbundnu sjálfstæði háskólanna og í samræmi við það fyrirkomulag sem þekkist í flestum nágrannaríkjum Íslands.  

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hvetur öll til kynna sér árangurstengda fjármögnun háskóla og senda inn umsögn eða ábendingu í gegnum Samráðsgáttina.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum