Hoppa yfir valmynd
25. október 2023 Innviðaráðuneytið

Skipulagsdagurinn 2023

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra flutti opnunarávarp á Skipulagsdeginum, árlegu málþingi Skipulagsstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skipulagsmál, sem fram fór í Grósku fimmtudaginn 19. október síðastliðinn.

Í ávarpi sínu fór ráðherra yfir landsskipulagsstefnuna, endurskoðun á gildandi stefnu, áherslur sínar og lykilviðfangsefni.

Hólmfríður Bjarnadóttir, skrifstofustjóri húsnæðis- og skipulagsmála hjá innviðaráðuneytinu, flutti auk þess erindi um endurskoðun landsskipulagsstefnunnar, umfang, markmið og aðgerðir.

Ráðherra hyggst á yfirstandandi haustþingi leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Drög að landsskipulagsstefnunni (hvítbók) eru nú aðgengileg í samráðsgátt stjórnvalda og hægt er að senda umsagnir eða ábendingar til og með 31. október.

 

Fjölbreyttur hópur sérfræðinga og hagsmunaaðila frá ríki, sveitarfélögum og úr atvinnulífinu tóku einnig til máls en deginum var skipt upp í fjögur meginþemu:

 • Endurskoðun landsskipulagsstefnu
 • Uppbygging húsnæðis og gæði byggðar
 • Aðlögun að loftslagsbreytingum
 • Skipulag á miðhálendi Íslands

Samræmd stefna fyrir landið í heild

Landsskipulagsstefnu er ætlað að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um þróun byggðar og landnýtingar. Þannig er landsskipulagsstefnu fyrst og fremst framfylgt með skipulagsgerð sveitarfélaga. Samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana.

Níu viðfangsefni

Í hvítbókinni eru skilgreind níu lykilviðfangsefni landsskipulagsstefnu. Þau eru:

 1. Loftslagsbreytingar
 2. Jafnvægi í uppbygging húsnæðis og lífsgæði í byggðu umhverfi.
 3. Uppbygging þjóðhagslegra mikilvægra innviða
 4. Landnotkun í dreifbýli
 5. Landnotkun á miðhálendi Íslands
 6. Orkuskipti í samgöngum og fjölbreyttir ferðamátar
 7. Skipulag haf og strandsvæða
 8. Skipulag vindorku
 9. Vernd líffræðilegrar fjölbreytni

Markmið landsskipulagsstefnu

Í tillögu um landsskipulagsstefnu eru sett fram þrjú markmið stjórnvalda í skipulagsmálum sem byggjast á sjálfbærri þróun og hafa skýra tengingu við framtíðarsýn og meginmarkmið ráðuneytisins, en þau felast í:

 1. Vernd umhverfis og náttúru
 2. Góðu samfélagi
 3. Samkeppnishæfu atvinnulífi

Sautján aðgerðir til fimm ára

Í hvítbók um skipulagsmál eru settar fram samtals 17 aðgerðir sem ætlað er að ná fram markmiðum landsskipulagsstefnu. Aðgerðirnar miða einkum að því að gera skipulagsgerð sveitarfélaga skilvirkari með bættu aðgengi að grunngögnum og leiðbeiningum.

 

Nánar á vef Skipulagsstofnunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum