Hoppa yfir valmynd
27. október 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland kallar eftir mannúðarhléi

Ísland kallaði eftir mannúðarhléi til að tryggja tafarlausa mannúðaraðstoð til óbreyttra borgara á Gaza í neyðarumræðu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í dag. 

Í gær, fimmtudag, hófst neyðarumræða í allsherjarþinginu vegna stríðsátakanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Jórdanía og Máritanía, fyrir hönd Arabaríkja og Samtaka íslamskra ríkja, óskuðu eftir umræðunni sem var fram haldið í dag. 

Nú undir kvöld voru greidd atkvæði um ályktun um ástandið sem Jórdanía, fyrir hönd ríkja Arabahópsins, hefur lagt fram og snúa mjög að mannúðarhliðinni. Því miður reyndist ómögulegt að ná samstöðu um texta ályktunarinnar sem tók ekki til grimmdarverka Hamas og tók ekki með beinum hætti á gíslatöku Hamas, en yfir 200 manns eru enn í haldi, þar af 30 börn. 

Kanada lagði fram breytingartillögu þar að lútandi í þeirri von að ályktunin myndi spegla allar hliðar málsins. Hún hlaut ekki brautargengi, en tvo þriðju hluta atkvæða þurfti til að hún yrði samþykkt. Því var kosið um ályktunina óbreytta og var hún samþykkt með 120 atkvæðum gegn 14. Ísland sat hjá ásamt 44 öðrum ríkjum, þar með talið Norðurlöndunum, utan Noregs, Eystrasaltsríkjunum, Hollandi, Bretlandi og Þýskalandi. Ísland hefði stutt ályktunina hefði breytingartillaga Kanada náð fram að ganga. 

Ísland kom afstöðu sinni skýrt á framfæri í atkvæðaskýringu strax að atkvæðagreiðslunni lokinni og er hana að finna hér. Ísland lagði áherslu á mannúðarhlé til að tryggja tafarlausa mannúðaraðstoð, harmaði gríðarlegt mannfall óbreyttra borgara og ítrekaði að þá yrði að vernda.

Ísland kallaði eftir því að hugað yrði að pólitískri lausn deilunnar, komið verði á friði og byggt á tveggja ríkja lausninni. 

Ísland harmaði jafnframt að ekki hefði náðst samstaða á fundinum og að öryggisráðinu hefði ekki tekist að ná saman, en þrjár ályktanir hafa verið felldar í ráðinu undanfarna daga. 

Ályktun allsherjarþingsins er ekki bindandi eins og ályktanir öryggisráðsins.

Íslenska þýðingu á ávarpi Íslands í neyðarumræðunni má finna hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum