Hoppa yfir valmynd
27. október 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Spennandi dagskrá og öflugir fyrirlesarar á heilbrigðisþingi 14. nóvember

Heilbrigðisþing 2023 fer fram í Hörpu þriðjudaginn 14. nóvember  - mynd

Heilbrigðisþing 2023 verður haldið í Hörpu þann 14 nóvember. Dagskráin er afar metnaðarfull og með norrænu og alþjóðlegu yfirbragði.  Þingið fer fram á ensku og hefur yfirskriftina: „Data and Digitalization: Crafting the Future of Sustainable Healthcare.“ Á vef þingsins eru allar upplýsingar um dagskrána og fyrirlesarana og þar fer skráning þátttöku fram.

Þetta er sjötta árið í röð sem heilbrigðisráðuneytið efnir til heilbrigðisþings þar sem áhersla er alltaf lögð á að fjalla um mikilvæg málefni sem varða heilbrigðiskerfið og heilbrigðisþjónustu í nútíð og framtíð.  Að þessu sinni verður sjónum beint að tækifærunum sem felast í nýtingu margvíslegra heilbrigðisgagna, stafrænnar þjónustu og gervigreindar. 

Norrænt samstarf

Ísland hefur í ár gegnt formennsku i Norrænu ráðherranefndinni. Á formennskuárinu hefur heilbrigðisráðuneytið haldið marga viðburði um heilbrigðismál og þeir hafa allir gengið mjög vel og vakið athygli á Norðurlöndum og víðar. Willum Þórsson heilbrigðisráðherra ákvað því að árlegt heilbrigðisþing árið 2023 yrði tileinkað norrænu samstarfi vegna formennskuhlutverksins. Enda felst margvíslegur ávinningur í auknu og áframhaldandi samstarfi Norðurlandanna þegar kemur að nýtingu heilbrigðisgagna og stafrænni þróun.  Heilbrigðisráðuneytið hefur tekið virkan þátt í norrænu samstarfi um langt árabil. Samstarfið hefur gefist afar vel og skilað margvíslegum gagnkvæmum ávinningi þjóðanna. 

Öflugir fyrirlesarar

Fyrirlesarar á þinginu koma víða að og eru allir vel þekktir hver á sínu sviði. Má þar nefna Clayton Hamilton frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), Eric Sutherland frá OECD og Persephone Doupi frá finnsku heilbrigðisstofnuninni sem mun ræða um norrænt samstarf varðandi það að deila og samnýta heilbrigðisupplýsingar og gögn til að efla vísindi, nýsköpun og heilbrigðisþjónustu landanna. Samstarfið kallast Nordic Commons og er eitt af áherslumálum Norrænu ráðherranefndarinnar.

Á meðal annarra fyrirlesara má nefna Björn Zoëga, forstjóra Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi, Sædísi Sævarsdóttur frá LSH/HÍ/deCODE og Svövu Maríu Atladóttur frá Landspítala.

Nokkur íslensk fyrirtæki á heilbrigðissviði munu kynna sína sýn og mikilvægi nýsköpunar á þinginu. Í lokin mun Bogi Eliasen frá Framtíðarstofnuninni í Kaupmannahöfn (CIFS) rýna í þær áskoranir sem heimurinn stendur fyrir á sviði heilbrigðismála og hvar Ísland er statt í þeirri mynd. Opnunarávarp þingsins flytur Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra slítur svo þinginu með ávarpi við lok glæsilegs heilbrigðisþings um kl. 16.00. Ráðstefnustjóri er Kristján Kristjánsson, blaðamaður.

Allar upplýsingar um þingið og fyrirlesarana er á vefsíðu þess dataforhealthcare.is og þar fer skráning þátttöku jafnframt fram.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum