Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Um hundrað öryggis- og hermálafulltrúar ræddu kynjajafnrétti á Barbershop viðburði

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra flutti opnunarávarp ráðstefnunnar. - myndMicky Kroell/OSEC

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hvatti í opnunarávarpi á Barbershop rakararáðstefnu hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í gær til áframhaldandi áherslu á kynjajafnrétti í störfum ÖSE. Hann sagði að með þrautseigju myndi skilningur aukast og tækifæri skapast fyrir konur til að stíga af meiri festu inn á svið öryggis- og varnarmála í álfunni. Fastanefnd Íslands hjá ÖSE efndi til ráðstefnunnar í samstarfi við fastanefndir Bandaríkjanna, Belgíu, Finnlands, Kanada, Noregs, Svíþjóðar og Þýskalands.

„Þrátt fyrir miklar framfarir á alþjóðavettvangi síðustu áratugi höfum við undanfarið orðið vitni að uggvænlegu bakslagi í jafnréttismálum sums staðar í heiminum. Við höfum dæmi um afturför í áunnum réttindum kvenna, líkt og í Afganistan. Það sýnir okkur hversu hratt hlutirnir geta breyst til hins verra. Það ætti að vera okkur skýr áminning um að halda vöku okkar í þessum málaflokki líkt og öðrum sem lúta að mannréttindum,“ sagði Bjarni meðal annars í myndbandsávarpi sínu.

Í gær voru nákvæmlega 23 ár liðin frá því að ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um „Konur, frið og öryggi“ var samþykkt. Ályktunin markaði tímamót í alþjóðlegum öryggis- og varnarmálum en með henni var í fyrsta sinn viðurkennt að jafnréttis- og kynjasjónarmið væru óaðskiljanlegur hluti af viðleitninni til að tryggja alþjóðlegan frið og öryggi.

Hátt í hundrað öryggis- og hermálafulltrúar ræddu mikilvægi aukins kynjajafnréttis á ráðstefnunni en karlar eru í miklum meirihluta innan öryggis- og varnarmála og hefðbundnar hugmyndir um karlmennsku gjarnan ríkjandi. Um 70 prósent þátttakenda voru karlar, en hlutfall karla hefur aldrei verið svo hátt á rakarastofuráðstefnu. Ísland hefur staðið fyrir hátt í tuttugu Rakarastofuviðburðum frá árinu 2015 með það meginmarkmið að skapa vettvang, ekki síst fyrir karla og drengi, til að ræða kynjamisrétti og stuðla að kynjajafnrétti. Eitt af markmiðum Íslands í landsáætlun um konur, frið og öryggi er að skipuleggja rakarastofuráðstefnur, til að tryggja að jafnréttis- og kynjasjónarmiða sé gætt innan öryggis- og varnarmála. 

Frummælandi ráðstefnunnar, Yaroslav Kalinichenko, ofursti hjá úkraínska hernum, greindi frá vinnu þeirra við að jafna stöðu kynjanna, bæði á fremstu víglínu og í æðstu stjórnunarstöðum. Per-Roe Petlund, undirofursti og jafnréttis- og kynjasérfræðingur hjá norska hernum, setti fram dæmi um hvernig að gæta jafnréttis- og kynjasjónarmiða eykur líkurnar á að markmiðum öryggis- og varnarstefnu sé náð, þar með talið á vettvangi. Einnig sátu í pallborði Friðrik Jónsson, fulltrúi utanríkisráðuneytisins og Patrick O’Reilly, skrifstofustjóri skrifstofu framkvæmdastjóra ÖSE. Þá leiddi Cody Ragonese, fulltrúi Equimundo, vinnustofu þar sem þátttakendur ræddu jafnréttismál frá eigin sjónarhóli og settu sér markmið um að vinna að auknu jafnrétti í lífi og starfi. 

Helga Hauksdóttir, sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Vínarborg setti ráðstefnuna og Ásdís Ólafsdóttir, einn höfunda rakarastofuverkfærakistunnar, stýrði umræðum.

  • Um hundrað öryggis- og hermálafulltrúar ræddu kynjajafnrétti á Barbershop viðburði - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum