Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Fyrstu drög að aðgerðum í aðgerðaráætlun ferðamálastefnu 2030 til umsagnar í samráðsgátt

Haustið 2022 hófst vinna við uppfærslu á stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 sem lauk í byrjun árs 2023. Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahags-, umhverfis- og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf í sátt við land og þjóð, að ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og að ferðaþjónustan sé þekkt fyrir sjálfbæra þróun, gæði og einstaka upplifun.

Í uppfærðum stefnuramma, sem myndar grunn að ferðamálastefnu til 2030, eru 12 áherslur sem deilast á lykilstoðirnar fjórar; efnahag, samfélag, umhverfi og gesti. Aðgerðaáætlun ferðamálastefnu mun fylgja eftir þeirri framtíðarsýn, markmiðum og áherslum.

Í maí 2023 skipaði ferðamálaráðherra sjö starfshópa sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum inn í aðgerðaáætlun fyrir ferðamálastefnu til 2030. Gert er ráð fyrir að stefnan og aðgerðaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2024. Verkefnið í heild sinni er leitt af stýrihópi á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis. Sjá nánar á www.ferðamálastefna.is.

Starfshóparnir sjö ná utan um alla þætti ferðaþjónustu, þ.e. sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og svo menningartengda ferðaþjónustu.

Starfshóparnir hafa þegar haft viðamikið samráð við haghafa og unnið þétt að verkefninu frá maí, m.a. með fjölda vinnustofa. Í samræmi við tímaáætlun verkefnisins hafa starfshóparnir nú skilað til stýrihóps fyrstu drögum að aðgerðum inn í aðgerðaráætlun ferðamálastefnu. Hafa þau drög verið sett í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda.

Í framhaldinu er á næstu vikum áformað að halda opna umræðu- og kynningarfundir um vinnuna í öllum landshlutum. Starfshóparnir halda áfram starfi sínu, vinna m.a. úr umsögnum og skila síðan endanlegum tillögum fyrir 15. desember 2023, til framangreinds stýrihóps verkefnisins sem samræmir aðgerðir í heildstæða aðgerðaáætlun og þingskjal, og skilar til ráðherra í janúar 2024.

„Hér er um tímamótavinnu á sviði ferðaþjónustu að ræða sem unnið hefur verið ötullega að undanfarnar vikur og mánuði, í fyrri áfanga við gerð aðgerðaráætlunar ferðamálastefnu til 2030. Tæplega 100 manns í sjö starfshópum hafa komið að verkinu, auk stýrihóps og þátttöku mun stærri hóps haghafa. Ég hvet alla til að kynna sér þessi fyrstu drög, senda inn umsögn og stuðla þannig að mótun skýrrar og metnaðarfullrar framtíðarsýnar og aðgerðaráætlunar fyrir íslenska ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er burðarás í íslensku atvinnulífi ásamt því að skapa meginþorra gjaldeyris í þjóðarbúið og vera stærsta byggðaaðgerð Íslandssögunnar. Þessi fyrstu drög að aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu eru afrakstur metnaðarfullrar vinnu fjölmargra aðila. Markmið okkar er skýrt; að búa ferðaþjónustunni samkeppnishæf skilyrði til að auka verðmætasköpun í sátt við samfélag og náttúru með sjálfbærni að leiðarljósi, hringinn í kringum landið,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum