Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Mikil fjölbreytni hjá styrkþegum Orkusjóðs

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flytur ávarp á fundinum. - mynd

Framleiðsla endurnýjanlegs eldsneytis, innviðir fyrir orkuskipti og tækjabúnaður sem skiptir út jarðefnaeldsneyti voru meðal verkefna kynnt voru á opnum fundi sem haldinn var nýlega um verkefni sem hlutu styrki úr Orkusjóði.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra veitt nýverið meira en 900 milljónum króna úr sjóðnum í 58 orkuskiptaverkefni og héldu Græna orkan, samstarfsvettvangur um orkuskipti, og Orkusjóður opinn fund á Nauthóli þar sem fjölbreyttur hópur styrkþega Orkusjóðs kynnti verkefni sín.

Heildarfjárfesting í þessum verkefnum er mun hærri en sem nemur 900 milljónum króna því hver styrkur getur hæst numið einum þriðja af heildarfjárfestingu. Þessi samþætting opinbers fjár og fjárfestinga einstaklinga og atvinnulífs er leiðarstefið í áætlunum um græn umskipti beggja vegna Atlantshafsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flutti ávarp á fundinum og kom fram í máli hans að áhersla og val á verkefnum við úthlutun úr sjóðinum hafi verið afar einföld. „Við veljum verkefni sem eru talin ná mestum og hröðustum árangri í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Það er magnað að sjá íslenskt hugvit í sinni tærustu mynd. Þetta er leiðin að árangri í þriðju orkuskiptunum. Við kláruðum raf- og hitaveituvæðingu landsins með íslenskt hugvit að vopni. Íslenskt hugvit var, er og verður lykillinn að árangri í orkuskiptum, sagði ráðherra.

Verkefnin sem kynnt voru endurspegla glöggt fjölbreytileika hinna mismunandi flokka sem styrktir voru í ár: framleiðslu endurnýjanlegs eldsneytis, innviði fyrir orkuskipti og tækjabúnað sem skiptir út jarðefnaeldsneyti. Þau styðja við orkuskipti á landsvísu og eru bæði stór og smá í sniðum en eiga það sameiginlegt að hafa það að markmiði að draga hratt úr losun. Þá má einnig vekja athygli á að verkefnin tengjast ólíkum geirum atvinnulífsins: sjávarútvegi, verslun og þjónustu, landbúnaði, fiskeldi, ferðaþjónustu, og ekki síst iðnaði.

  • Fjölbreyttur hópur styrkþega Orkusjóðs kynnti verkefni sín á fundinum. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum