Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Sameining Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs, í Samráðsgátt

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs áform um lagasetningu vegna sameiningar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs. 

Undanfarin misseri hefur vinna farið fram innan ráðuneytisins að sameiningu og endurskoðun sjóða sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins. Starfsemi fjárfestingarsjóða á vegum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins er liður í þessari endurskoðun, en í dag eru tveir sjóðir starfandi sem hafa það hlutverk að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og sérhæfðum sjóðasjóðum. Þetta eru Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA) og Kría, sprota- og nýsköpunarsjóður. 

,,Markmiðið með sameiningu NSA og Kríu er að búa til öflugan fjárfestingarsjóð sem leggur áherslu á stuðningi við sprota á fyrstu stigum sem og fjárfestingar í sjóðasjóðum. Getur sjóðurinn verið sveigjanlegri eftir breytingum á markaði og tryggt að stuðningsumhverfi nýsköpunar sé með besta móti á Íslandi,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nýsköpunarráðherra.

Fyrirmyndir í sambærilegum sjóðum á Norðurlöndunum

Stefnt er að því að sameining NSA og Kríu skapi sterka einingu í anda EIFO (áður Vækstfonden) í Danmörku og Tesi í Finnlandi sem eru dæmi um opinbera sjóði sem stuðla að virku fjármögnunarumhverfi og fjárfesta í sjóðum og fyrirtækjum til þess. Slíkur sjóður muni geta boðið upp á afurðir sem henta breytileika umhverfisins og þörfum á hverjum tíma, hvort sem um er að ræða aðstoð við upprennandi sjóðstjóra (e. emerging managers), aðkomu að fyrstu stigum fjármögnunar með þátttöku í sjóðasjóðum, eða með breytanlegum lánum til fyrirtækja sem eru of ung fyrir hefðbundna vísisjóði eða á annan hátt liggja fyrir utan áhugasvið þeirra. 

Öflugt stuðningsumhverfi nýsköpunar stoð undir hugverkadrifið atvinnulíf

Mikilvægt er að opinber stuðningur í formi fjárfestinga leiði til þess að atvinnulíf eflist hér á landi, samkeppnishæfni landsins aukist og fleiri fyrirtæki vaxi upp úr nýsköpunarumhverfinu og myndi sterka stoð undir hugverkadrifið atvinnulíf. Svo þetta megi verða þarf stuðningsumhverfi nýsköpunar að vera skilvirkt og sveigjanlegt ásamt því að beina fjármagni þangað sem þörfin er mest hverju sinni.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hvetur öll til að kynna sér áform um lagasetningu vegna sameiningar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs og senda inn umsögn eða ábendingu í gegnum Samráðsgáttina. Umsagnarfrestur er til 20. nóvember nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum