Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2023 Innviðaráðuneytið

Öruggar örsamgöngur og fjármögnun innviðaframkvæmda

Norrænir ráðherrar samgöngumála á Geysi - mynd

Fundur norrænna samgönguráðherra var haldinn á Hótel Geysi í byrjun nóvember. Meðal gesta voru þau Jon-Ivar Nygård, samgönguráðherra Noregs, Lulu Ranne, samgöngu- og fjarskiptaráðherra Finnlands og Andreas Carlson, innviðaráðherra Svíþjóðar. Ísland fer með formennsku í norrænu ráðherranefndinni.

Á fundinum var rætt um örsamgöngur sem er heitið á samgöngumátum, á borð við rafskútur, sem nýtast í stuttum ferðum. Rætt var um hvernig ríkin hafa nálgast tækifæri og áskoranir sem þessir samgöngumátar hafa í för með sér. Notkun þeirra hefur jákvæð samfélagsleg áhrif en mikilvægt er að skapa umgjörð sem tryggir sem best öryggi notenda smáfarartækja og annarra vegfarenda.

Aðrar umræður á fundinum snerust meðal annars um öryggi innviða og samvinnu ríkjanna á þessu sviði ásamt fjármögnun innviðaframkvæmda. Ríki standa frammi fyrir þeirri áskorun að tekjustofnar sem koma frá samgöngum hafa dregist saman með aukinni notkun rafbíla. Í því skyni var rætt um ýmsar leiðir sem ríki geta farið til að sinna uppbyggingu og viðhaldi samgönguinnviða.

„Á fundum sem þessum er mikilvægt að við ræðum sameiginlegar áskoranir á Norðurlöndunum á sviði samgöngumála og hvernig við getum stutt hvert við annað í aðgerðum ásamt því að auka skilvirkni og öryggi,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Í heimsókn sinni til landsins heimsóttu Norrænu samgönguráðherrarnir ásamt þátttakendum fundarins Carbix þar sem þau fengu kynningu á starfsemi fyrirtækisins.

 

  • Þátttakendur fundarins í heimsókn hjá Carbix - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum