Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Streymi frá ráðstefnu – Hvernig getur réttinda- og lýðræðislegt skólaumhverfi unnið gegn hatursorðræðu í skólastofunni?

Hvernig getur réttinda- og lýðræðislegt skólaumhverfi unnið gegn hatursorðræðu í skólastofunni er umfjöllunarefni ráðstefnu sem fer fram 16. nóvember kl. 9:00–15:30 í Hörpu. Mennta- og barnamálaráðuneytið stendur fyrir ráðstefnunni sem er hluti af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og afmæli Barnasáttmálans sem fagnar 34 ára afmæli 20. nóvember nk.

Markmið ráðstefnunnar er að leiða saman fagfólk á vettvangi til þess að ræða hvernig hægt sé að skapa barnaréttindamiðað og lýðræðislegt skólaumhverfi og takast á við það mikilvæga mál að berjast gegn hatursorðræðu og fordómum innan skólaumhverfisins. Á ráðstefnunni verður sérstaklega horft til reynslu Norðurlandanna og þá einkum til tengslanets Norrænu ráðherranefndarinnar um lýðræði, inngildingu og samheldni (DIS, demokrati, inklusion og sammenhallning).

Á ráðstefnunni verður fjallað um fordóma og hatursorðræðu á Íslandi, einkum er snýr að skólasamfélaginu. Rætt verður um áskoranir og tækifæri sem felast í tjáningarfrelsinu, úrræði til að taka á fordómum, öfgahyggju og hatursorðræðu í kennslustofunni, og aðferðir til að efla lýðræði, gagnrýna hugsun og stuðla að inngildingu. Sjónum verður beint að verkfærum sem nýst hafa á Norðurlöndunum til að styðja við skólasamfélagið.

Ráðstefnan fer fram á ensku og ber heitið Advancing Child Rights and Democratic School Environments, Embracing Diversity and Combating Hate Speech. Fyrirlesarar á ráðstefnunni koma víða að og búa yfir víðtækri þekkingu og reynslu, bæði í skólastarfi og á sviði rannsókna.

Ráðstefnan er öllum opin. Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt er að skrá sig.

Streymt er frá ráðstefnunni hér og upptaka birt að ráðstefnu lokinni.

Streymi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum