Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Árangur af þróunarsamvinnu Íslands og Malaví ræddur á fundi utanríkisráðherra

Ráðherra og starfsfólk utanríkisráðuneytisins ásamt sendinefndinni frá Malaví. - mynd

Góður árangur af þróunarsamvinnu Íslands og Malaví, mikilvægi jafnréttismála og loftslagsmál voru ofarlega á baugi á fundi Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra og Nancy Tembo, utanríkisráðherra Malaví, sem fram fór í morgun.  

„Við eigum í einstöku sambandi við Malaví, en ríkin fagna 35 ára samstarfsafmæli þróunarsamvinnu á næsta ári. Það er auðvitað sérstakt ánægjuefni að sjá þann áþreifanlega árangur sem samstarfsverkefni okkar í Malaví hafa skilað þjóðinni,” segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.  

Nancy Tembo tók þátt í Heimsþingi kvenleiðtoga, sem er nýlokið í Hörpu, en markmið heimsóknar hennar var ekki síður til að styrkja sambandið við Ísland. Ráðherrann kemur frá Mangochi-héraði í Malaví, sem hefur einmitt verið eitt helsta samstarfshérað Íslands í landinu.

Áhersla lögð á að halda áfram góðu samstarfi þjóðanna

Ráðherrarnir ræddu sömuleiðis erfitt efnahagsástand í Malaví. Í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins, innrásar Rússa í Úkraínu og endurtekinna náttúruhamfara hefur efnahagur landsins versnað mjög, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkti í gær neyðarlán til Malaví að upphæð 178 milljóna Bandaríkjadala. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi áframhaldandi samstarfs ríkjanna á sviði þróunarsamvinnu og alþjóðamála. 

Í för með utanríkisráðherra Malaví voru Halima Daud, staðgengill heilbrigðisráðherra, og Habiba Osman, sem gegnir stöðu framkvæmdastýru hjá Mannréttindastofnun Malaví. Þær þekkja vel til verkefna Íslands í Malaví  og hafa komið að samstarfinu með einum eða öðrum hætti. 

Stór hluti verkefna Íslands í Malaví hefur beinst að bættu aðgengi að heilbrigðisþjónustu með áherslu á mæðra- og ungbarnaheilsu. Þá hefur Ísland nýlega hafið stuðning við Mannréttindastofnun landsins í samræmi við auknar áherslur á mannréttindi í þróunarsamvinnu. Stofnunin sinnir meðal annars vöktun og eftirfylgni með mannréttindabrotum í landinu, til dæmis hvað varðar kynbundið ofbeldi, réttindi fatlaðs fólks, fólks á flótta og hinsegin fólks.   

Margir fundir á skömmum tíma

Auk þátttöku í Heimsþinginu átti utanríkisráðherra Malaví og sendinefnd fundi með utanríkismálanefnd og þróunarsamvinnunefnd þar sem þær ræddu um samstarf Íslands í landinu. Auk þess heimsóttu þær Íslandsstofu til að kynna sér markaðsstarf Íslands í ferðmálum, en Malaví hefur mikinn áhuga á því að byggja upp ferðaþjónustu í landinu.

Nancy Tembo tók þátt í pallborðsumræðu á Heimsþinginu þar sem að hún kom inn á þær áskoranir sem Malaví, lítið Afríkuríki með eitt minnsta kolefnisfótspor í heimi, stendur frammi fyrir vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. 

Habiba Osman átti einnig fundi með ýmsum mannréttindasamtökum hérlendis, þar á meðal Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Samtökunum 78 og Jafnréttisskólanum. 

  • Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ásamt Nancy Tembo utanríkisráðherra Malaví. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum