Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Róbert Spanó kosinn í stjórn tjónaskrár fyrir Úkraínu

Róbert Spanó var í dag kjörinn í stjórn alþjóðlegrar tjónaskrár fyrir Úkraínu sem tekur til eignaskemmda, manntjóns og alvarlegra meiðsla sem orðið hafa í stríði Rússlands í Úkraínu. Atkvæðagreiðslan fór fram á fundi aðila að tjónaskránni sem fer fram í Strassborg í dag. Róbert, ásamt frambjóðanda Ítalíu, hlaut næstflest atkvæði á eftir frambjóðanda Þýskalands í eitt af sjö sætum stjórnarinnar. 

„Stofnsetning tjónaskrárinnar var ein helsta niðurstaða leiðtogafundar Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík í maí og veigamikið skref í átt að ábyrgðarskyldu vegna þeirra brota sem Rússland hefur framið þar í landi. Afar mikilvægt er að vel takist til og með íslenskum fulltrúa í stjórn tjónaskrárinnar sýnum við okkar stuðning í þágu Úkraínu,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.

Tjónaskrá fyrir Úkraínu er starfrækt sem hluti af starfsemi Evrópuráðsins, en skrifstofa tjónaskrárinnar er staðsett í Haag. Á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík skrifuðu 44 leiðtogar undir aðild að tjónaskránni og hefur undirbúningur að stofnsetningu hennar gengið vel. 

Stjórn tjónaskrár fyrir Úkraínu samanstendur af sjö mjög reyndum sérfræðingum. Úkraína átti fyrirfram eitt sæti samkvæmt stofnsamningi um tjónaskrána, en sextán frambjóðendur frá fjórum heimsálfum kepptu um sex laus sæti í kosningunum í dag. Auk frambjóðenda Íslands, Þýskalands og Ítalíu hlutu frambjóðendur Bandaríkjanna, Póllands og Finnlands kosningu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum