Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stuðningur vegna launa fólks sem starfar í Grindavík

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum nú í morgun frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um tímabundinn stuðning vegna launa fólks sem starfar í Grindavík. 

Lögin taka til starfsfólks á almennum vinnumarkaði sem getur ekki mætt til vinnu vegna þess að starfsstöð þess er staðsett í Grindavíkurbæ. Markmið laganna er að vernda afkomu umræddra einstaklinga með því að tryggja laun þeirra upp að ákveðnu hámarki. Markmið laganna er sömuleiðis að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks þannig að sem flest þeirra sem vinna í Grindavík haldi störfum sínum.

Gert er ráð fyrir að ríkið greiði fjárhæð að ákveðnu hámarki sem gangi upp í laun starfsfólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga og að stuðningurinn sem ríkið greiðir geti numið allt að 633.000 krónum á mánuði auk framlags í lífeyrissjóð. Þetta er sama hámarksfjárhæð og Ábyrgðasjóður launa greiðir.

Ef einstaklingar sem lögin gilda um verða fyrir því að fá ekki greidd laun, þrátt fyrir ofangreint úrræði, munu þeir sjálfir geta fengið stuðning frá Vinnumálastofnun, enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt.

Gert er ráð fyrir því að Vinnumálastofnun sjái um greiðslurnar og að lögin muni gilda frá og með 11. nóvember sl. og út febrúarmánuð á næsta ári. Framkvæmd varðandi greiðslu stuðnings verður útskýrð nánar á vef Vinnumálastofnunar á næstu dögum.

Fyrir liggur að ríki og Grindavíkurbær munu áfram greiða starfsfólki sínu í Grindavík laun. Lögunum er því einungis ætlað að gilda um stuðning til greiðslu launa vegna starfsfólks á almennum vinnumarkaði.

Ef fyrirtæki sem fengið hafa ofangreindan stuðning ákveða að greiða eigendum sínum út arð fyrir lok febrúar 2025 ber þeim að endurgreiða stuðning ríkisins áður en til arðgreiðslna kemur. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Grindvíkingar hafa orðið fyrir gríðarlegu áfalli og við erum enn í atburðarásinni miðri. Ég dáist að því hvernig íbúar, stjórnkerfi og fyrirtæki í Grindavík hafa tekist á við hamfarirnar. Það er okkar hinna að standa með Grindvíkingum og styðja fólk og aðstoða með öllum þeim ráðum sem við getum. Við í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu fórum samstundis af stað og afurðin er lagafrumvarp sem dreift verður á Alþingi síðar í dag. Gert er ráð fyrir að lögin gildi út febrúar á næsta ári. Ákvörðun um framhaldið verður síðan tekin þegar við sjáum hvernig málin þróast.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum