Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

OECD metur stuðning ríkisins við rannsóknir og þróun fyrirtækja árangursríkan

Í nýrri úttekt sem OECD vann að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er lagt mat á áhrif skattaafsláttar til fyrirtækja vegna rannsóknar og þróunar á Íslandi í samræmi við lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.

Stuðningur við rannsóknir og þróun hefur aukist hvað mest hér á landi í samanburði við önnur OECD lönd. Stuðningurinn fór úr því að vera 0,07% af vergri landsframleiðslu árið 2006 í rúmlega 0,42% árið 2020.

Hefur hvetjandi og jákvæð áhrif á fyrirtæki

OECD kemst að þeirri niðurstöðu að skattastuðningur vegna rannsókna og þróunar hafi hvetjandi og jákvæð áhrif á fyrirtæki til frekari fjárfestinga á því sviði. Er þá sérstaklega vísað til lítilla og örfyrirtækja. Hvatt er til þess að lítil og meðalstór fyrirtæki fái áfram hlutfallslega meiri stuðning en stærri fyrirtæki líkt og gert var með breytingu á lögunum árið 2020. Síðan þá hafa lítil og meðalstór fyrirtæki geta fengið 35% af kostnaði við rannsóknir og þróun í skattaafslátt en stór fyrirtæki 25%. Hámark er á kostnað fyrirtækja sem skattaafslátturinn nær til og er hámarkið 1,1 ma.kr. rekstrarárið 2023.

OECD metur það svo að fyrirtæki virðist hafa góðan skilning á gildandi reglum um málaflokkinn. Hins vegar er á það bent að þörf sé á aukinni gagnasöfnun og greiningu, svo leggja megi sem best mat á árangur af þessum stuðningi, bæði gagnvart viðkomandi fyrirtækjum og í þjóðhagslegu samhengi. Jafnframt er þörf á að bæta samvinnu þeirra stofnana sem að málaflokknum koma og huga að lagabreytingum á þeim atriðum sem snúa að eftirliti og gagnasöfnun. Munu ráðuneytin í framhaldinu vinna úr tillögum úttektarinnar.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra:

,,Stuðningur ríkisins við rannsóknir og þróun er stærsta einstaka stuðningsúrræði stjórnvalda á sviði nýsköpunar. Ánægjulegt er að fá staðfestingu OECD á því að stofnunin sjái að stuðningurinn hafi skilað sér í stóraukinni rannsóknar- og þróunarvirkni fyrirtækja. Jafnframt sjáum við aukna fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun, fjölbreyttari störf og auknar útflutningstekjur af hugverka- og tækniiðnaði.”

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra:

,,Á síðustu árum hefur nýsköpunarumhverfið á Íslandi tekið miklum og jákvæðum breytingum. Sá stuðningur sem veittur er í gegnum skattkerfið skiptir þar máli en einnig fjölmargir aðrir þættir sem leggja þarf rækt við. Það sem mestu skiptir þegar öllu er á botninn hvolft er hvernig gengur að skapa ný verðmæti á grundvelli hugvitsdrifinnar nýsköpunar og um þessar mundir virðist Ísland bjóða upp á mjög samkeppnishæft umhverfi hvað þetta varðar að öllu leyti.“  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum