Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2023 Innviðaráðuneytið

Tillaga til þingsályktunar um húsnæðisstefnu ásamt fimm ára aðgerðaáætlun lögð fram á Alþingi

Kópavogur - myndHugi Ólafsson

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.

Sigurður Ingi: Sigurður Ingi: „Stjórnvöld hafa nú í fyrsta sinn markað sér skýra langtímastefnu í húsnæðismálum sem er mikið ánægjuefni. Íbúum á Íslandi er alltaf að fjölga auk þess sem skortur hefur verið á íbúðarhúsnæði. Með nýrri húsnæðisstefnu ásamt vandaðri áætlanagerð um uppbyggingu íbúða drögum við úr efnahagslegum óstöðugleika. Við stuðlum jafnframt að skilvirkari stjórnsýslu þannig að stefna, áherslur og aðgerðir í húsnæðismálum skapi skilyrði til að öllum sé tryggt aðgengi að góðu og öruggu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði sem hentar ólíkum þörfum hvers og eins.”

Lykilviðfangsefni húsnæðisstefnu

Stærsta áskorun samfélagsins í húsnæðismálum á komandi árum snýr að því að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði í jafnvægi við umhverfið til að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Samhliða þarf að auka húsnæðisöryggi þeirra sem höllum fæti standa á húsnæðismarkaði, meðal annars með því að stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu. Með þeim sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði er átt við tekju- og eignalægri einstaklinga og fjölskyldur, fyrstu kaupendur, heimili með þunga framfærslubyrði og þau sem búa við markaðsbrest á húsnæðismarkaði.

Til að takast á við þessar áskoranir er lagt til að unnið verði að eftirfarandi átta lykilviðfangsefnum:

  1. Stöðugleika á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mætir þörf.
  2. Skilvirkri stjórnsýslu á sviði húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmála.
  3. Greinargóðum upplýsingum um húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmál byggðum á áreiðanlegum tæknilegum innviðum.
  4. Húsnæðisöryggi og jafnrétti landsmanna í húsnæðismálum með félagslegum jöfnuði og blöndun byggðar.
  5. Sérhæfðum lausnum til að mæta áskorunum á landsbyggðinni.
  6. Markvissum húsnæðisstuðningi sem sé afmarkaður við þá sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði.
  7. Bættri réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda og bættum rauntímaupplýsingum um leigumarkaðinn.
  8. Sjálfbærri þróun, gæðum og rekjanleika í mannvirkjagerð.

Framtíðarsýn húsnæðisstefnu

Með tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu er í fyrsta sinn sett fram heildstæð stefnumótun í húsnæðismálum á landsvísu sem hefur að leiðarljósi að tryggja að öll búi við húsnæðisöryggi í víðtækum skilningi. Til að svo megi verða þurfa stefna, áherslur og aðgerðir í málaflokknum allt í senn að stuðla að efnahagslegum stöðugleika, húsnæði af miklum gæðum, sjálfbærni, félagslegum jöfnuði og öflugum atvinnusóknarsvæðum. Þannig verði sköpuð skilyrði til að öll hafi aðgengi að góðu og öruggu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði sem hentar ólíkum þörfum hvers og eins. Húsnæðisstefnu er þannig ætlað að mæta þeim megináskorunum sem felast í að stuðla að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði með stöðugu framboði fjölbreytts húsnæðis í samræmi við íbúðaþörf og þarfir vinnumarkaðarins; auka gæði, öryggi og hagkvæmni íbúða í jafnvægi við umhverfið og tryggja að þau sem á þurfa að halda hljóti viðeigandi húsnæðisstuðning. Þannig verði stutt við grundvallarrétt hvers og eins til húsnæðis og sköpuð skilyrði til velferðar og virkrar þátttöku í samfélaginu.

Húsnæðisstefna byggir þannig á eftirfarandi framtíðarsýn í húsnæðismálum: Stöðugleiki ríki á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf í jafnvægi við umhverfið. Öllum sé tryggt öruggt og gott húsnæði í blandaðri byggð og húsnæðiskostnaður þeirra sé viðráðanlegur.

Markmið húsnæðisstefnu

Í tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu eru sett fram eftirfarandi fjögur markmið stjórnvalda í húsnæðismálum:

  1. Jafnvægi verði á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf og þróun húsnæðis- og leiguverðs sé stöðug.
  2. Skilvirk stjórnsýsla og bætt starfsumhverfi mannvirkjagerðar stuðli að auknum gæðum, öryggi, rekjanleika og hagkvæmni íbúðauppbyggingar í jafnvægi við umhverfið.
  3. Landsmenn búi við húsnæðisöryggi og jafnrétti í húsnæðismálum með því að sköpuð verði skilyrði með markvissum húsnæðisstuðningi til að öll hafi aðgengi að öruggu og góðu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði.
  4. Framboð íbúða stuðli að virkum vinnumarkaði og styðji við öflug vinnusóknarsvæði um allt land.

Aðgerðaáætlun til fimm ára

Í tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu til næstu fimmtán ára ásamt aðgerðaáætlun til næstu fimm ára eru settar fram samtals 43 aðgerðir sem ætlað er að ná fram markmiðum húsnæðisstefnu. Níu þeirra falla undir markmið um jafnvægi á húsnæðismarkaði, 14 undir markmið um að skilvirkari stjórnsýslu og gæði íbúða í jafnvægi við umhverfið, 14 undir markmið um húsnæðisöryggi og jafnrétti landsmanna í húsnæðismálum og sex undir markmið um að framboð íbúða stuðli að virkum vinnumarkaði um land allt.

Þegar hefur ýmislegt verið gert

Alls eru níu frumvörp, sem eru hluti aðgerðanna í tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu ýmist í vinnslu í ráðuneytinu eða hafa verið lögð fram á Alþingi. Frumvörpin styðja við þau markmið sem stefnan byggir á.

Nú þegar hafa um 6.500 íbúðir verið fjármagnaðar fyrir fyrstu kaupendur og tekju- og eignaminni. Þar af hafa um 2.500 íbúðir verið teknar í notkun í hinu nýja húsnæðiskerfi sem byggt er á norrænni fyrirmynd. Gert er ráð fyrir verulegri aukningu framlaga árin 2024 og 2025, en stefnt er að því að byggðar verði 2.800 íbúðir í stað 1.250, þar af 800 árið 2023.

Einnig hafa um 625 íbúðir verið fjármagnaðar í hlutdeildarlánakerfinu, sem er úrræði fyrir fyrstu kaupendur undir ákveðnum tekjumörkum. Þar af hafa verið veitt lán fyrir um 170 íbúðir það sem af er árinu 2023. Áætlanir gera ráð fyrir að fjármagnaðar verði 400 íbúðir með hlutdeildarlánum árið 2024.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum