Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2023 Innviðaráðuneytið

Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu ásamt fimm ára aðgerðaáætlun lögð fram á Alþingi 

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, lagði í gær fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.

Sigurður Ingi: „Það hefur margt breyst í samfélaginu okkar á undanförnum árum og eru viðfangsefni skipulagsgerðar nú fleiri en þegar gildandi landsskipulagsstefna var mótuð. Ísland hefur undirgengist ýmsar alþjóðaskuldbindingar sem hafa þýðingu fyrir skipulagsmál, s.s. loftlagsmál en loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun samtímans. Landið í heild þarf að vera eftirsóknarverður kostur fyrir ungt fólk og mikilvægt er að þróun búsetu- og samgöngumynsturs styðji til framtíðar markmið í loftslagsmálum og styrki byggð vítt og breitt um landið. Í því samhengi er mikilvægt að sveitarfélög hugi að þessum málum í sinni skipulagsgerð og að fyrir liggi leiðbeiningar um hvernig skipulagsgerðin getur haft áhrif í baráttunni við loftslagsvána.”

Landsskipulagsstefna

Landsskipulagsstefna felur í sér samræmda stefnu ríkisins í skipulagsmálum fyrir landið í heild og tekur til landsins alls og haf- og strandsvæða. Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt í gegnum skipulagsgerð sveitarfélaga en samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á og taka mið af áherslum landsskipulagsstefnu við skipulagsgerð. Þá er lögð fram sérstök aðgerðaráætlun og er henni einnig ætlað að stuðla að framfylgd stefnunnar.

Framtíðarsýn

Landsskipulagsstefnan byggist á eftirfarandi framtíðarsýn í skipulagsmálum: „Að skipulag stuðli að sjálfbærri þróun og lífsgæðum, styðji samkeppnishæfni og sé sveigjanlegt og stuðli að viðnámsþrótti gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum.“

Lykilviðfangsefni landsskipulagsstefnu

Til að takast á við þær áskoranir sem blasa við á sviði skipulagsmála verði unnið að eftirfarandi níu lykilviðfangsefnum:

  1. Viðbrögðum við loftslagsbreytingum.
  2. Jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis og lífsgæði í byggðu umhverfi.
  3. Uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða.
  4. Landnotkun í dreifbýli.
  5. Landnotkun á miðhálendi Íslands.
  6. Orkuskiptum í samgöngum og fjölbreyttum ferðamáta.
  7. Skipulagi haf- og strandsvæða.
  8. Skipulagi vindorku.
  9. Vernd líffræðilegrar fjölbreytni.

Markmið landsskipulagsstefnu

Í tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu eru sett fram þrjú markmið stjórnvalda í skipulagsmálum sem byggjast á sjálfbærri þróun og hafa skýra tengingu við framtíðarsýn og meginmarkmið innviðaráðuneytisins, þau felast í:

    A. Vernd umhverfis og náttúru.
    B. Velsæld samfélags.
    C. Samkeppnishæfu atvinnulífi.

Fyrir hvert markmið eru settar fram áherslur og tilmæli um hvernig framfylgja skuli viðkomandi áherslu í skipulagsgerð hvort sem er á landi eða á haf- og strandsvæðum. Áherslurnar fylgja bæði eftir stefnu sem fram kemur í öðrum áætlunum stjórnvalda en einnig þeim lykilviðfangsefnum sem ráðherra lagði til grundvallar við endurskoðun stefnunnar.

Aðgerðaáætlun til fimm ára

Aðgerðaáætlun stefnunnar felur í sér 19 aðgerðir sem ætlað er að ná fram markmiðum landsskipulagsstefnu. Aðgerðirnar miða einkum að því að gera skipulagsgerð sveitarfélaga skilvirkari með bættu aðgengi að grunngögnum og leiðbeiningum. Aðgerðaáætlun stefnunnar felur í sér markvissar aðgerðir til að stuðla að því að styrkja stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði. Þar má sérstaklega nefna áherslur og veigamiklar aðgerðir til að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð þar sem tekið er mið af mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga á samfélög og innviði.

Áhersla á loftslagsmál

Eitt af lykilviðfangsefnum landsskipulagsstefnu er að skipulag sé loftslagsmiðað. Ákvarðanir sem teknar eru við gerð skipulagsáætlana eru lykilþáttur í að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, auka bindingu kolefnis og aðlaga samfélagið að breytingum sem verða á umhverfi okkar vegna loftslagsbreytinga. Skipulagsáætlanir í þéttbýli skulu taka mið af vistvænu skipulagi byggðar, sem felur m.a. í sér stefnu um almenningssamgöngur og fjölbreyttan ferðamáta.

Samspil atvinnulífs og samfélags

Markmið endurskoðaðrar landsskipulagsstefnu er meðal annars að hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf um allt land, með áherslu á góða samgönguinnviði og tengingar milli byggðarlaga. Er það lykilatriði þeirrar áherslu að jafna búsetuskilyrði í byggðum landsins. Áhersla á alþjóðlega samkeppnishæfni beinir sjónum að samspili atvinnulífs og aðlaðandi samfélags. Mikilvægt er að styrkja atvinnulíf til framtíðar, efla nýsköpun og leita jafnframt leiða til auka fjölbreytni atvinnulífs með tilliti til staðbundinnar þekkingar og styrkleika svæða. Þannig má tryggja komandi kynslóðum velsældarsamfélag sem er eftirsótt til búsetu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum